Á dag fjallaði ég um Benjamin Franklin á Rás 1. Mér tókst ekki að koma að þeim umdeilanlega fróðleiksmola að hr. Franklin hafi fundið upp þvaglegginn.
# # # # # # # # # # # # #
Sumarið kom snemma. Ég hafði einsett mér að byrja að safna skeggi á fyrsta vetrardag og raka það á sumardaginn fyrsta.
En um helgina var of hlýtt. Ég gekk um bæinn með barnið í kerru og hugsaði – það er komið vor!
Og í dag lét ég klippa mig og raka.
Pólski hárgreiðslumaðurinn hjá Dóra á Hótel Sögu dútlaði út í hið óendanlega við hárið á mér og svo rakaði hann skeggið af. Hann skildi eftir yfirvaraskegg – hló og sagði „þú ert eins og Michael Schumacher“ – ég hló með, þótt ég skildi að hann ætti við Tony Schumacher.
Og ég var bara fjári líkur ófétinu Tony Schumacher….
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn á tvo daga eftir á þingi. Þá mun Paul Nikolov taka við. Ansi stífri törn er blessunarlega að ljúka, þar sem Steinunn er á síðustu dropunum. Nú munu taka við ansi margir hvíldardagar þar sem hún reynir að leggja ekkert á sig.
Ég er ofboðslega stoltur af frúnni að hafa staðið þetta af sér. Á tveimur mánuðum tókst henni að mæla fyrir lagafrumvörpum, þingsályktunartillögum og lenda í þrefi við þrjá ráðherra. Mælendaskráin hennar á þinginu sýnir að hún hefur talað í rúma klukkustund á þessum tveimur mánuðum. Það er umtalsvert meira en margir fastir þingmenn.