Það eru ekki fallegar fregnir sem berast frá Tíbet núna. Hafi sjálfstæðissinnar í Tíbet vonast til þess að athygli umheimsins vegna Ólympíuleikanna myndi halda aftur af fantatökum Bejing-stjórnarinnar reyndist það tálvon.
Merkilegt er að lesa vangaveltur á bloggsíðum sumra hægrimanna að íslenskir vinstrimenn láti sig ekki málstað tíbetsku þjóðarinnar varða vegna þess að samúð þeirra liggi hjá Kínastjórn. Það er fáránleg kenning.
Þvert á móti ættu tíbetsku sjálfstæðissinnarnir að vera vinstrimönnum miklu geðþekkari en stjórnin í Bejing með sinn ríkiskapítalisma.
Dalai Lama er nefnilega einn nafntogaðasti stjórnmálamaður samtímans sem kennir sig við Marxisma. Fræg er skilgreining hans á sjálfum sér, þess efnis að hann sé hálfur marxisti og hálfur búddisti. – Það hefur alltaf legið fyrir að Dalai Lama sér sjálfstætt Tíbet fyrir sér sem sósíalískt samfélag.
Ef íslenskir vinstrimenn eru ekki að standa sig nógu vel í að halda merki sósíalistans Dalai Lama á lofti, þá er það a.m.k. ekki af pólitískum ástæðum.