Stress, stress, stress…
Stuna! Nú er ekki gaman að vera til. Ég sit sveittur við að reyna að klára erindið sem ég á að halda á morgun í vísindasöguhópi ReykjavíkurAkademíunnar sem ég er í. Þar ætla ég að rekja í grófum dráttum niðurstöður mastersritgerðarinnar minnar sem ég skrifaði í Edinborg síðasta sumar. Fyrir vikið neyddist ég til að rifja efnið upp og komst fljótlega að því að það yrði ekki hlaupið að því að klippa það niður í hálftíma erindi. – Einkum þar sem ég kemst ekki að neinum konkret niðurstöðum að heitið geti í ritgerðinni.
Kannski skrifa ég meira um þessa ritgerð síðar á þessum vettvangi, en í stórum dráttum fjallar hún um skrif sagnfræðinga, lækna og náttúrufræðinga um eðli Svarta dauða. Þetta er allt ákaflega postmódernískt og mun gamla liðið því eflaust hrylla sig yfir framúrstefnunni. – En það eru sem sagt allir velkomnir á erindið í Nýja garði kl. 16:00 fimmtudag.
En bókvitið verður ekki í askana látið – þess vegna þarf ég að elda kvöldmat líka. Raunar hef ég komið mér ótrúlega vel hjá því að elda undanfarna mánuði. Það hef ég gert með eftirfarandi aðferðum:
i) Bjóða mér í mat hjá gömlu
ii) Láta tengdó bjóða í mat
iii) Éta ekki neitt (sem ég geri því miður alltof oft)
iv) Kaupa skyndibita
v) Éta bara ristað brauð og seríós
vi) Láta Steinunni elda
vii) Stinga upp á því við Steinunni að við eldum saman, en ákveða strax í byrjun verksins að réttast sé að ég fari sem snöggvast í sturtu, vaski upp eða taki til í stofunni… (klikkar nánast aldrei)
– En því miður eru þessi trikk ekki óbrigðul og öðru hvoru neyðist ég til að malla eitthvað. Og hvað verður fyrir valinu að þessu sinni? Jú, hin rómaða (og rjómalagaða) sjávarréttasúpa Stefáns. Henni má slafra í sig, einkum ef maður reynir að hugsa ekki út í að fyrir hráefniskostnaðinn hefði mátt borga einhverjum öðrum fyrir að elda betri mat og ódýrari.
Jamm