Einkarekna fyrirtækið Heilsuverndarstöðin er farið á hausinn, þrátt fyrir að hafa notið ágætrar pólitískrar fyrirgreiðslu ef marka má fréttir síðustu missera.
Mörgum þótti nafnavalið ósvífið, enda um að ræða heiti sem almenningur þekkti vel og tengdi við rótgróna stofnun sem starfaði um áratugi innan opinbera kerfisins.
Líklega höfðu eigendur einkafyrirtækisins þó allan rétt í málinu. „Heilsuverndarstöðin“ var hvergi skráð vörumerki og því lítið við þessu að segja.
En þetta vekur aftur upp spurningar um hversu duglegir opinberir aðilar séu að láta skrá nöfn og vörumerki tengd starfsemi þeirra? Ef ég stofna orkufyrirtæki – er þá nafn eins og „Hitaveitan“ laust, sem felur í sér hugrenningartengsl við gömlu Hitaveituna sem nú er hluti af OR.
Gæti ég opnað sjoppu í Bústaðahverfinu og gefið henni nafnið „Réttó“? Er „Sundhöllin“ skráð vörumerki? Og svona mætti lengi telja…