Fyrir margt löngu, þegar ég var pjakkur í Melaskóla, var bekknum sett fyrir að vinna verkefni um jólasveinanna (teikna mynd, skrifa textabút eða hnoða saman vísu).
Ég valdi Faldafeyki.
Rétt er að taka það fram að ég var ekki pervertískt barn eða heltekinn af hugmyndinni um að blása upp földum kvenmannspilsanna. Mér fannst hins vegar Faldafeykir grátt leikinn af Jóhannesi úr Kötlum.
Það er útbreiddur misskilningur að Jóhannes úr Kötlum hafi valið jólasveinana þrettán úr stórum hópi jólasveinanafna sem finna mátti í þjóðsögum. íður er Jóhannes settist niður við að semja jólasveinavísur sínar, var nokkur sátt orðin um það hverjir jólasveinarnir þrettán væru. Eitthvað var reyndar um að nöfnin væru mismunandi – sumir töluðu um Skyrgám aðrir um Skyrjarm o.s.frv.
Sá listi sem flestir munu hafa haldið sig við innihélt tólf af jólasveinum Jóhannesar… og Faldafeyki að auki.
Einhverra hluta vegna ákvað skáldið hins vegar að ritskoða listann og fjarlægja dónakarlinn Faldafeyki. Þess í stað skipti hann einum hinna upp í tvo sveinka. (Man ekki hvort það var Pönnusleikir/Pottaskefill eða Bjúgnakrækir/Kjötkrókur.) Eftir að þjóðin lærði vísurnar um jólasveinana, varð ekki aftur snúið.
Þetta fannst mér alltaf ömurlega fúlt fyrir Faldafeyki. Á mínum huga var hann alltaf Pete Best jólasveinanna – eða jafnvel Stephen Tin-tin Duffy (sem var víst í upprunalegu settinu hjá Duran Duran…)
Ég lét mig dreyma um að einhver snjall hagyrðingur myndi búa til vísu um Faldafeyki, þannig að hann ætti séns á kommbakki sem fjórtándi jólasveinninn. Sú hugmynd hefur enn ekki fengið mikinn hljómgrunn og á líklega enn erfiðara updráttar nú í kreppunni. Sennilega eru meiri líkur á að jólasveinunum verði fækkað enn frekar. Ætli Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri ekki kröfu um jólasveina einn og átta, í staðinn fyrir þrettán – hvað þá fjórtán?