Tengdó sauð upp kjötsúpu í kvöld. Kjötsúpan hennar er líklega á topp fimm listanum yfir besta mat í heimi. Ekki spillti fyrir að þetta voru afgangar frá gærkvöldinu. Kjötsúpa er nefnilega alltaf betri upphituð.
Eftir súpusötrið skundaði ég á miðnefndarfund. Samþykktum þessa ályktun. Á morgun (fim.8.jan.) kl. 17 mæti ég fyrir framan bandaríska sendiráðið, þar sem Ísland-Palestína efna til mótmæla. Þessum morðum verður að linna!
# # # # # # # # # # # # #
Eitt af því sem hefur alla tíð einkennt vinnuna mína, er að hún skiptist upp í uppsveiflutímabil – þar sem ég er brennandi af ástríðu fyrir starfinu – og deyfðartímabil þar sem ég held bara í horfinu, geri það sem ætlast er til af mér en ekkert meira.
Sálfræðingur gæti örugglega skellt einhverri fínni greiningu á þetta.
Nema hvað – núna er að byrja uppsveiflutímabil. Eftir dauflegt haust, er hausinn allt í einu að springa af hugmyndum. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á morgnanna og vill síður fara heim í lok vinnudags. Það er allt í gangi og ég er með góða menn með mér í verkefnin. Um leið og ég verð búinn að afgreiða skólaheimsókn morgundagsins, ætla ég að einhenda mér í að sækja safngripi úr geymslunni og byrja að þrífa þá. Seinni partinn verð ég því miður bundinn á trúnaðarmannafundum – en ætti þó að ná að semja nokkra texta…
Núna er gaman í vinnunni. Megi þetta tímabil vara sem lengst!