Stóra núllinu er náð. Eftir að hafa leikið helming leikjanna og einum betur, er Luton komið upp í núll stig.
Gerðum jafntefli í kvöld gegn Chester á útivelli, 2:2. Þetta er áttundi leikurinn í röð án taps í deildinni… vandamálið er að nánast allir þessir leikir hafa endað með jafntefli, sem hefur lítið að segja í fallbaráttu.
Þá er bara að gera betur gegn Darlington í næsta leik… Þangað mæta allir góðir menn!
# # # # # # # # # # # # #
Ég ætla ekkert að blogga um annað keppniskvöld Gettu betur. Hlustaði ekki á keppnina, þar sem ég var á Neshaganum að fara í gegnum bókaskápana í dánarbúi afa og ömmu.
Bókasafnið þeirra er að mestu laust við dýrgripi, en þar er líka sáralítið af rusli. Merkilegustu bækurnar eru væntanlega ýmis ljóðakver úr fórum skáldkonunnar, Ingibjargar langömmu. Mörg hver árituð persónulega.
Skemmtilegast fannst mér þó að rekast á eintak af Hvalasögu Kjarvals, áritað til langafa og langömmu. Ekki vissi ég að sú bók væri til í safninu og hef þó skoðað það býsna vel…