Á síðustu Bretlandsferð keypti ég dvd-settið með The New Statesman, gamanþáttum með Rik Mayall sem Alan B´Stard – þingmanni breska íhaldsflokksins sem ber nafn með rentu.
Hafði mig í að horfa á fyrsta þáttinn í kvöld (einhverjir 19 eftir). Þetta er bara ágætt. Rik Mayall hefur alltaf verið í uppáhaldi. Ég var mjög ánægður með The Young Ones og hafði gaman af Bottom, sem sýndir voru á Skjá einum í gamladaga, áður en hann gerðist trendý og fór að leika sér með stolnu símapeningana.
Annars var nú alltaf planið að geyma sér allt þetta efni þangað til nýi grísinn kæmi í heiminn og andvökunæturnar byrja…
# # # # # # # # # # # # #
Undir þessu glápi (er einn heima – frúin fór í VG-kvennapartý) gúffa ég í mig Coolea-osti. Það mun vera ostur sem gerður er eftir hollenskri uppskrift, en á írlandi. Fantagóður.
Af hverju á ég Coolea-ost í ísskápnum? Jú, í síðustu Nóatúnsferð rak ég nefið inn í nýju ostabúðina, Búrið, sem er starfrækt í verslunarkjarnanum í Nóatúninu. Ég ætlaði bara að skoða og ekki kaupa neitt, en búðareigandinn gleypti mig með húð og hári. Hún lét mig smakka hinar og þessar tegundir, rakti sögu hverrar um sig og vissi allt um sérhvern ost.
Þegar maður hittir svona ástríðufellt sölufólk er ekki hægt annað en að hrífast með og ég gekk út með vænan ostbita.
Mæli með Búrinu í Nóatúni. Okkur veitir svo sannarlega ekki af almennilegum sérverslunum með osta – því þótt Íslendingar eigi nokkrar þokkalegar tegundir, þá er þetta mestallt hálfgert plast við hliðina á því besta sem Evrópubúar gera.
# # # # # # # # # # # # #
Athyglisverðustu úrslit enska boltans í dag voru í Bláa fernings deildinni. Rushden & Diamonds unnu Weymouth 9:0. Fyrir leikinn hafði Weymouth 42 stig en R&D 40 stig – bæði um miðja deild.
ístæðan fyrir stórsigrinum var einföld. 24 klst. fyrir leik lýstu allir byrjunarliðsmenn Weymouth því yfir að þeir myndu ekki spila. Sumir vegna þess að þeir eru hættir vegna ógoldinna launa – aðrir vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa vissu fyrir að þeir væru tryggðir við vinnu sína – að spila fótbolta.
Weymouth tefldi því fram unglingaliði sem var kjöldregið.
Mögulega mun Weymouth ljúka tímbilinu með fullt lið af táningum. Félagið myndi þá vafalítið falla niður um deild – en ekki vera refsað enn frekar fyrir að ná ekki að ljúka tímabilinu. Harla líklegt verður þó að teljast að klúbburinn sé að sigla gjörsamlega í strand.
Fyrir 5-6 árum hefði staða mála hjá Weymouth enga athygli vakið hjá neinum öðrum en nokkur hundruð eða þúsund stuðningsmönnum. Á dag er þetta hins vegar enn eitt viðvörunarmerkið um hrunið sem virðist yfirvofandi í enska neðrideildarboltanum. Grein sem lifað hefur góðu lífi í meira en hundrað ár er nú á fallanda fæti, því er nú fjandans verr.
# # # # # # # # # # # # #
Ég ætla ekkert að blogga um Gettu betur að þessu sinni. Þátturinn í kvöld var fínn, en ég hef tekið að mér ráðgjafarverkefni í tengslum við keppnina og get því ekki bloggað um hana í ár.