Neðrideildarboltinn á Englandi er í vaxandi mæli farinn að ráðast á skrifstofum endurskoðunarfyrirtækja frekar en á knattspyrnuvellinum. Gjaldþrotahrina blasir við, þar sem fjölmörg félög hafa að mestu eða öllu leyti verið komin upp á örlæti ríkra eigenda sem geta ekki lengur leyft sér slíkan munað.
Tuttugasti mars er dagsetning sem vert er að hafa í huga. Búast má við að fyrir þann dag muni nokkur félög lenda í greiðslustöðvun. ístæðan er einföld: fari félag í greiðslustöðvun fyrir þann dag – lendir tíu mínusstiga refsingin á þessu keppnistímabili. Taki liðin þetta skref eftir 20. mars, mun tíu stiga refsingin gilda á þessu ári ef hún hefur áhrif á það hvort viðkomandi lið fellur eða færist upp um deild, en ella byrjar það með tíu stig í mínus næsta haust.
Það er því félögunum væntanlega í hag að taka skellinn núna – sjái þau fram á að greiðslustöðvun sé óumflýjanleg.
Cheltenham, sem situr neðst í C-deildinni, verður væntanlega fyrst til að tilkynna um þessa ákvörðun. Félagið er eitt þeirra sem komið hefur upp úr utandeildinni á síðustu árum, en ekki tekist að sníða sér stakk eftir vexti þar. Ólíklegt verður að teljast að félögum verði leyft að hefja keppni á næstu leiktíð nema þau séu komin úr greiðslustöðvun. Það verður að gerast eftir reglum deildarinnar (sem er nánast útilokað) – að öðrum kosti fá liðin frekari refsingar, líklega fimmtán mínusstig fyrir fyrsta brot.
Það þýðir að Cheltenham má búast við að hefja keppni með fimmtán stig í mínust í neðstu deild í haust, fari það í greiðslustöðvun á næstu dögum – annars verða mínusstigin líklega 25 – og þá að þeirri forsendu gefinni að nýr kaupandi finnist…
Þess getur ekki verið langt að bíða að fyrsta liðið fari endanlega á hausinn í þessari hrinu og falli niður um margar deildir – líkt og kom fyrir Halifax um árið. Þótt alltaf sé sorglegt að horfa á eftir fótboltaliðum, má ekki gleyma því að það hefur alltaf verið hluti af knattspyrnunni að eitt og eitt lið deyr drottni sínum. Gjaldþrot margra liða er hins vegar annað og stærra mál.
Meðal þess sem rætt er í þessu efni, er hvort réttast væri að sameina gömlu fjórðu deildina og efstu deildina í utandeildarkeppninni og búa til tvær svæðisskiptar deildir: norður og suður. Rekstrarumhverfi liðanna þar yrði þá jafnframt endurskoðað og tekið til athugunar hvort raunhæft sé að reka þau með hreinni atvinnumennsku eða í það minnsta að setja enn strangari skilyrði um launakostnað sem hlutfall af veltu. Líklega verður þó ekki vilji til að grípa til svo róttækra aðgera fyrr en komið er í algjört óefni – spurning hversu mörg félög verð þá búin að gefa upp öndina?