Reykjavíkurslagur (b)

Valur og Fram mætast í kvöld. Þótt liðin séu bæði um miðja deild, þá er þetta einhvern veginn einn af aðalleikjum sumarsins.

Fyrir fáeinum árum hefði ég alltaf litið á KR-inga sem helstu andstæðinga okkar Framara. Það er alveg búið. Valsmenn eru klárlega komnir í efsta sætið á listanum yfir erkifjendur og mér heyrist að það viðhorf sé orðið nokkuð almennt meðal Framara.

Ekki spillir fyrir að leikurinn í kvöld verður á nýja Valsvellinum, sem verður að viðurkennast að er einn sá allra skemmtilegasti hér á landi.

Gaman verður að sjá hvernig Þorvaldur stillir upp liðinu. Ætli Jón Guðni Fjóluson haldi ekki bara sætinu á miðjunni og Paul McShane fari á kantinn?

# # # # # # # # # # # # #

Luton byrjaði utandeildarkeppnina með því að gera jafntefli í erfiðum útileik gegn „alvöru“ Wimbledon. Alltaf erfitt að mæta nýliðum í fyrstu umferð.

Það er samt eins gott að stigin fari að skila sér vel í hús í fyrstu umferðunum, annars er hætt við að mínir menn fari á taugum.