Á toppnum (b)

Luton-mönnum var kippt niður á jörðina og minnt á hversu djúpt liðið er sokkið. Andstæðingarnir, Gateshead tóku bara 48 stuðningsmenn með sér á Kenilworth Road. Einn leikmanna andstæðinganna var forfallaður… hann var nefnilega bundinn í brúðkaupi systur sinnar. Eitthvað segir mér að slík afsökun myndi ekki ganga í úrvalsdeildinni.

Við unnum – þótt öllum heimildum beri saman um að frammistaðan hafi verið ömurleg. Lentum undir, en skoruðum svo tvö mörk á 21.mínútu. Upp frá því gerðist lítið sem ekkert.

En það eru stigin sem telja. Sjö stig eftir þrjá leiki hljóta að teljast viðunandi árangur. Altrincham og Oxford hafa jafnmörg stig. Cambridge og Mansfield koma þar á eftir – allt lið sem búast mátti við í toppslagnum.

Á þriðjudaginn kemur er svo útileikur gegn Forest Green Rovers. Það er skyldusigur. Ef við ætlum að komast upp úr þessari deild í fyrstu atrennu er afar mikilvægt að ná sem allra flestum stigum í þessu stífa prógrami í ágúst, þrátt fyrir talsverð meiðsli og leikbönn frá fyrra tímabili.