Það voru 1.800 áhorfendur á leik Forest Green Rovers og Luton í kvöld – helmingurinn Luton-stuðningsmenn. Við unnum 0:1, með marki frá Craddock um miðjan seinni hálfleikinn. Stuðningsmönnunum er ekki skemmt. 10 stig af 12 mögulegum hljómar svo sem ágætlega, en frammistaðan í tveimur síðustu sigrum gegn hálfatvinnumannaliðum úr neðri hluta deildarinnar þykir döpur.
Oxford, sem flestir telja aðal keppinauta okkar í ár, hirtu toppsætið á markatölu með 4:0 sigri á Chester.
Chester fékk sem sagt loksins að hefja leik í mótinu, en með 25 mínusstig og hefur fengið á sig átta mörk í leikjunum sínum tveimur. Skipbrot þeirra er algjört. Eigandinn setti félagið í greiðslustöðvun í þeirri von að geta afskrifað skuldirnar og flutt keppnisleyfið á nýja kennitölu. Niðurstaðan varð sú að hann verður að halda áfram að reka félagið á gömlu kennitölunni og þarf því að standa skil á milljón punda skattaskuld sem hann á ekki fyrir, en fékk samt 15 stig í mínus oná þau 10 sem hann var kominn með fyrir tiltækið.
Stuðningsmennirnir hljóta að spyrja sig hvort ekki hefði verið betra að freista þess að stofna nýtt félag að ári, sem byrja myndi í því sem samsvarar 7.deild, frekar en að falla núna og leika á næsta ári í 6.deild – skuldum vafinn? Chester er líklega dauðadæmt og gæti lent í að ná ekki að ljúka keppnistímabilinu vegna leikmannaflótta.
Á laugardaginn mætum við einmitt Chester á heimavelli. Það er eins gott að menn standi í lappirnar þar.