Sónninn

Ég á við hvimleitt vandamál að stríða. Spurning hvort hinir ljónskörpu lesendur þessarar síðu geti komið til aðstoðar?

Hér á Mánagötunni eru þrjár íbúðir. Ein í kjallara, við á miðhæðinni og efri hæðin hjá Siggu og Benedikt. Upp á síðkastið hefur farið að bera á leiðinlegum són – einsleitu og háu hljóði sem varir frá 4-5 sekúndum og upp í svona hálfa mínútu í senn. Hljóðið berst úr þeim hluta íbúðarinnar þar sem baðherbergið er (baðherbergin í íbúðunum þremur eru hvert ofan á öðru). Það er erfitt að átta sig á því hvaðan það berst nákvæmlega. Það kemur ekki úr blöndunartækjum, heldur virðist frekar vera innan úr veggjunum eða úr loftinu. Í kjallaranum heyrist ekki neitt. Við heyrum ágætlega í þessu en á efstu hæðinni er hávaðinn mjög mikill og Sigga farin að slökkva á heyrnartækinu sínu vegna þessa.

Svo virðist sem hljóðið hafi byrjað að láta á sér kræla í vor en verður stöðugt tíðara og hærra. Það er mest á kvöldin, en lætur minna bera á sér yfir miðjan daginn. Á kvöldin er nánast hægt að kalla það fram að vild með því að skrúfa frá krönum og/eða sturta niður. Að deginum lætur það ekki eins vel að stjórn.

Okkur datt í hug að þetta gæti verið afleiðing af millirennsli milli heits og kalds vatns – en píparinn sem kom í heimsókn í dag (þegar ekkert heyrðist) sagði að um slíkt gæti varla verið að ræða, þar sem blöndunartækin væru ekki sjóðheit eins og þegar slíkt gerðist.

Hver djöfullinn getur eiginlega verið á ferðinn?