Fyrir mörgum, mörgum árum – meðan ég nennti ennþá að fylgjast vel með gangi mála í efstu deild í Englandi, var Julian Dicks einn allra harðasti naglinn. Lengst af spilaði hann með West Ham, en átti eitt eða tvö ár hjá Liverpool.
Núna er Dicks orðinn stjóri hjá Grays Athletic, sem verða einmitt mótherjar Luton í næstu umferð ensku bikarkeppninnar. Ég geri ráð fyrir að þetta verði í fyrsta skipti í sögunni sem Luton hefur ekki leik í aðalkeppni bikarsins, heldur þarf að spila einn leik í forkeppninni. Það er furðuleg tilfinning.
* * *
Kevin Nicholls, fyrirliði okkar Luton-manna er mikill harðjaxl en þykir ekki bjartasta peran í seríunni. Liðið er enn stjóralaust, en tveir úr þjálfunarteyminu – Neilson og Watson – hafa stýrt því í tveimur síðustu leikjum sem báðir unnust.
Í gær hafði The Sun eftir Nicholls: „There is only one man for the job: Neilson & Watson.“
…góður!