Einföld leit á Tímaritavef Landsbókasafnsins sýnir að orðið „stjörnuleikur“ hefur verið notað í meira en hálfa öld. Það vísar þá bæði til góðrar frammistöðu á leiksviði eða í íþróttakeppni. Að öðru leyti hefur notkun „stjörnu-“ forskeytisins verið frekar tilviljanakennd í íslensku.
Frægir Hollývúddleikarar hafa fengið sæmdarheitið „stjörnuleikarar“ og hugtakið „stjörnulögmaður“ var kynnt til sögunnar í tengslum við réttarhöldin yfir O.J. Simpson.
Í seinni tíð hafa Íslendingar líka þótt þess verðugir að teljast „stjörnu-“ e-ð. Eins merkilegt og það er, virðist forskeytið frátekið fyrir tvær stéttir, sem báðar eru þó almennt taldar frekar neðarlega í mannvirðingarstiganum: lögfræðingar/lögmenn og blaðamenn/fréttamenn. Nú er alvanalegt að sjá vísað í að stjörnulögfræðingurinn X eða stjörnublaðamaðurinn Z hafi gert hitt og þetta…
Eru einhverjar aðrar stéttir sem þetta forskeyti er notað um? Ef reynt er að gúggla orðum eins og „stjörnusmiður“, „stjörnuveðurfræðingur“ eða „stjörnukennari“ – kemur lítið eða ekkert upp. Hvað veldur? („Stjörnukisi“ gefur reyndar 4þúsund síður, en þær vísa velflestar í samnefnda hljómsveit.)
Er ekki rakið nú á ári stjörnufræðinnar að reyna að breyta þessu og gefa fleiri þjóðfélagshópum þessa einkunn? Sjálfur gæti ég alveg hugsað mér að verða „stjörnusafnvörðurinn Stefán.“