Úgg. Á gær fór ég gjörsamlega upp úr engu að raula lagið úr gamalli frænmetisauglýsingu. Hú var á þessa leið:
Nú er lag –
Sólargrænmeti hvern dag!
Það heilsu þína bætir –
sem og vax-tar-lag…
Eitthvað segir mér að það hafi verið tvö erindi. Er einhver von til þess að einhver lesandi hafi restina á takteinum? Jafnframt væri gaman að vita hvort Sólargrænmeti sé ennþá framleitt?
Og úr því að verið er að rifja upp sungnar auglýsingar – þá var Svarti-Pétur, lakkrísjógúrt, skringileg afurð. Hún bragðaðist eins og bíldekk í undanrennu en var auglýst á bráðskemmtilegan hátt af hópi unglinga í pönkarafötum sem öskruðu sig í textann: „Svarti P-é-é-étur! Lakkrís jó-ó-ógúrt!“ – Hvernig geta svona vörur klikkað á markaði?
Að lokum – svona úr því að verslunarmannahelgin nálgast – hver man ekki eftir útihátíðinni „Gauknum“ í Þjórsárdal. (Skemmtilegt að vísa svona í fornsögurnar.) Allan júlímánuð fyrir þá samkomu var spiluð linnulaust útvarpsauglýsing með stórkarlalegum kór syngja: „Um verslunarmannahelgina – þá förum við á Gaukinn!“ – Þangað mættu svo rustamenni og lögðu Þjórsárdal í rúst.
Man einhver nákvæmlega hvaða ár Gaukurinn var haldinn?