17.200

Óskaplega var hún pínleg uppákoman, þegar forstjóri álversins fyrir austan kom í fjölmiðla og sagði fyrirtæki sitt borga fjóra milljarða í beina skatta. Tveimur dögum síðar var vitleysan hrakin ofan í hann, enda kom á daginn að maðurinn reiknaði inn í þá upphæð skattana sem starfsfólkið hans greiðir.

Ekki lét stjórinn þessar leiðréttingar slá sig út af laginu, heldur áréttaði að fyrirtækið borgaði þetta víst… bara svona óbeint. Auk þess sem fyrirtækið borgaði líka fyrir rafmagnið sem það keypti. (Minnisblað til forsetaritara: gefa forstjórum stórra fyrirtækja fálkaorðuna fyrir að stela ekki rafmagninu úr dreifikerfinu…)

En hvað ætli álverið á Reyðarfirði sé að borga til ríkisins í beina skatta?

Það borgar vissulega talsverðar upphæðir til sveitarfélagsins, s.s. í formi aðstöðu- og hafnargjalda. En hvað með ríkið?

Ekki borgar fyrirtækið neinn tekjuskatt næstu árin, enda tiltölulega nýhafið starfsemi og á ennþá næga afskriftarliði í sínum bókum.

Jú, það borgar tryggingargjaldið af hverjum starfsmanni, eins og önnur fyrirtæki. Það rennur beint í tóman atvinnuleysistryggingasjóð.

Hvað er þá eftir? Jú – 17.200 krónur… í útvarpsgjald.

Það má nú kaupa margt fallegt fyrir 17.200 kall.