Annasamri helgi er lokið. Þrátt fyrir öflugt dreifingarátak á Fram-Vest blaðinu, töpuðu mínir menn gegn KR. Undirtektirnar voru hins vegar frábærar. Framarar, stuðningsmenn annarra liða og meira að segja allnokkrir KR-ingar hafa lýst sérstakri ánægju sinni. Stöku KR-ingur brást við af geðvonsku og pirringi – berin eru súr…
Háspunkturinn var brúðkaupið á laugardaginn hjá Jóhönnu og Valdimar. Raunar sleppti ég brúðkaupinu, enda lítill unnandi krikjulegra athafna. En veislan var þeim mun betri.
Hitti fólkið á svölunum. Þau komu til okkar Steinunnar og sögðust kannast við okkur úr Norðurmýrinni, þar sem þau sæju okkur oft þegar þau færu út að reykja. Fyrst hélt ég að þetta væru CIA-njósnararnir sem ég hef bloggað um áður, en síðar kom í ljós að þau búa í húsinu við hliðina. Það eru sem sagt fleiri svala-njósnarar í hverfinu en áður var talið.
Við urðum strax hinir mestu mátar og erum búin að gefa leyfi fyrir því að garðurinn á Mánagötunni verði gerður að leiksvæði barna. Það er heldur ekki eins og hann hafi nokkurn annan tilgang í dag.
Enn síðar kom í ljós að granninn góði var meðlimur í hinni goðsagnakenndu hljómsveit Bruna BB. Það er ekki amalegt!