Það eru miklar gleðifregnir að draumur Grænlendinga um að verða olíuríki virðist loks vera að rætast. Þessu fagna allir góðir menn.
Best er að þá munu Grænlendingar loksins geta sagt Dönum hvert þeir mega troða yfirráðum sínum. Fátt er ömurlegra að heyra en hvernig margir Danir tala um Grænlendinga.
Grænlendingar eru jafnt og þétt að öðlast pólitískt sjálfstæði undan Dönum. Mér sýnist þeir þó vera það miklir royalistar að lýðveldisstofnun er ólíkleg. Danska konungsættin hefur nefnilega ræktað tengslin við Grænland og komið reglulega í heimsókn – það bræðir yfirleitt jafnvel hörðustu sjálfstæðissinna. (Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ef danska kóngafólkið hefði komið í reglulegar heimsóknir til Íslands eftir 1874 – væri vel mögulegt að Íslendingar væru enn í konungssambandi við Dani. Íslandsreisurnar voru einfaldlega of fáar og byrjuðu of seint.)
Menningarlega verða Grænlendingar enn undir dönsku valdi. Grænlensk vinkona mín frá því að ég var í Edinborg – gallharður sjálfstæðissinni – taldi að það mikilvægasta fyrir sjálfstæðisbaráttu Grænlendinga væri að þjóðin lærði betri ensku. Meðan menn töluðu bara grænlenskuna og dönskuna yrði Kaupmannahöfn alltaf eini gluggi þeirra til umheimsins. Íslendingar myndu gera vel í því að bjóðast til að verða annar gluggi fyrir grannann í vestri.
Fréttirnar af olíufundinum hafa þó einn galla. Um leið og farið verður að fjalla um þessi mál í íslenskum fjölmiðlum, er alltaf sú hætta fyrir hendi að upp gjósi ómeðvitaður rasismi, klæddur í búning föðurlegrar umhyggju. Við eigum eftir að fá fréttaskýringar þar sem rætt verður um auðlindir Grænlendinga, en um leið látið að því liggja að þeir séu ekki „undir þau búnir“ – þar sem undirtónninn verður sá að samfélag þeira sé í raun ófært um að sjá um sig sjálft og myndi leysast upp í alkóhólisma og félagsleg vandamál ef ekki kæmi til verndarhendi Dana a.m.k. næstu áratugina.
Því fyrr sem Grænlendingar taka stjórn sinna mála í eigin hendur, því betra.