Nú loga netheimar yfir gamla myndbandinu um eldhúsið í höfuðstöðvum Orkuveitunnar, sem dregið hefur verið fram eins og nýjar og óþekktar upplýsingar. Það er reyndar til marks um hversu minni manna er lélegt. Það eru nefnilega mörg ár síðan myndband þetta varð að blaðamáli og gekk manna á milli á netinu. DV gerði sér sérstaklega mat úr þessu.
Á þeim tíma kom reyndar fram að kostnaðurinn við gerð myndbandsins var greiddur af þeim birgjum sem selt höfðu Orkuveitunni innréttingar og tæki. Myndin var líka fyrst og fremst notuð í auglýsingaskyni fyrir þessa aðila, enda minnir hún helst á langdregna búsáhaldaauglýsingu. Framlag Orkuveitunnar var því fólgið í að starfsfólkið „lék“ í myndbandinu dagpart og Helgi Pé las þulartextann.
Hvers vegna voru menn að standa í þessu fyrir sjö árum síðan? Tja, menn voru montnir af nýja mötuneytinu sínu og fannst gaman að sýna það. Hégómlegt? Já… vissulega. Bruðl? Onei.
En óháð spurningunni um hvort myndbandið hafi kostað orkunotendur peninga – er rétt að velta því fyrir sér hvort eldhúsið sjálft sé til marks um sóun og spillingu.
Það er í raun ekki valkvætt fyrir stór fyrirtæki að hafa mötuneyti. Mötuneyti er einfaldlega kjarasamningsmál. Annað hvort reka fyrirtæki eigið mötuneyti, tryggja starfsmönnum aðgang að mötuneyti annars staðar eða borga matarpeninga. Um leið og fyrirtæki hafa náð vissum starfsmannafjölda, borgar sig fyrir þau að reka þetta sjálf.
Og hver er þá besti mælikvarðinn á rekstur mötuneyta? Er það ekki einna helst kostnaðurinn við gerð hverrar máltíðar? Eftir því sem mér er sagt, er kostnaðurinn við hverja máltíð hjá Orkuveitunni lágur miðað við það sem gerist og gengur hjá stærstu fyrirtækjamötuneytum. Skýringin er ekki hvað síst sú að húsnæðið er hannað með starfsemina í huga og góður tækjabúnaður tryggir betri nýtingu á hráefni, minni mat er hent og framleiðnin er betri.
Þetta eru í sjálfu sér ekki mikil vísindi. Almenna reglan í allri framleiðslu er sú að gott og þægilegt vinnuumhverfi með fullkomnum tækjum þýðir betri nýtingu á hráefni og vinnuafli. Eða halda menn að það yrði ódýrara að reka eldhús í þröngu rými með ófullnægjandi búnaði?
Auðvitað er sjálfsagt að menn hafi skoðun á eldhúsum opinberra fyrirtækja og stofnanna, en er ekki rökréttast að byggja slíkt mat á því hvað reksturinn kostar í krónum og aurum, frekar en að ergja sig á stærðinni á frystikistunni?