Forsíðan

Hinn annars frábæri Tímaritavefur Landsbókasafnsins er ekki gallalaus. Þannig er aðeins aðra forsíðu Moggans þann ellefta janúar 2004 þar að finna. Það er hasarforsíðan um „heimsviðburðinn“ þegar Íslendingar fundu efnavopnin í Írak. Hins vegar er ekki að finna þá útgáfu blaðsins sem áskrifendur úti á landi fengu í hendur, sem er sá hluti upplagsins sem ekki var keyrður á haugana þegar rýma þurfti forsíðuna fyrir þessari meintu stórfrétt.

Maður veltir því fyrir sér hvort Morgunblaðið hafi íhugað að ryðja forsíðuna og prenta nýtt upplag í ljósi uppljóstrana Wikileaks, þar sem sýnt er fram á kerfisbundnar rangfærslur og lygar Bandaríkjahers varðandi stríðið í Írak. Stríð sem er nú sagt hafa kostað 100 þúsund Íraka lífið. (Til samanburðar má nefna að það er tvöföld sú tala sem oft er áætlað að evrópskir trúarnöttarar hafi látið brenna á báli í tíð galdrafársins í Evrópu. Stóðu þau ósköp þó í aldir og eiga fáa meðmælendur.)

En nei, líklegra er að Morgunblaðið telji það áhugaverðara að velta sér upp úr því hvort hinn sjálfhverfi Julian Assagne sé dónakall eða ekki.