Ómar Ragnarsson skrifar grein um kosningakerfi. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig best er að tengja á hana. Ómar er nefnilega með Moggablogg og síðu á Eyjunni – þar sem nálega sömu færslur birtast. Og viðkomandi grein birtist líka sem aðsendur pistill á Herðubreið. En hér er amk Moggabloggsútgáfan.
Hér skammast Ómar, sem á að fara að gera tillögur á komandi stjórnlagaþingi, yfir kosningafyrirkomulaginu íslenska – sem mismuni smáflokkum. Það er rétt hjá honum að kosningakerfi Íslendinga hafa um langt árabil verið andsnúin smáflokkum og reynt að gera þeim erfitt fyrir. Þetta sárnar Ómari – enda lítur hann svo á að Íslandshreyfingin hafi verið rænd tveimur þingmönnum á sínum tíma.
Ómar hefur reyndar skrifað áður um sama mál. Og þá – líkt og nú beinir hann skömmum sínum að „5% þröskuldinum“. Líklega á gagnrýni Ómars á þennan þröskuld stærstan þátt í því hversu oft maður heyrir það endurtekið í umræðunni að þessari lúalegu reglu sé um að kenna að Ómar hafi ekki komist á þing.
Hér er þröskuldur hengdur fyrir smið. Hið rétta er að reglan um 5% þröskuldin er ein af fáum reglum sem settar hafa verið inn í íslenskt kosningakerfi til að rétta hlut smáflokka. Áður en þessi regla var sett, má segja að framboð á borð við Íslandshrefyinguna 2007 hefði verið dauðadæmt frá upphafi.
Án reglunnar um 5% þröskuldinn hefði Íslandshreyfingin þurft að ná inn kjördæmakjörnum manni til að geta fengið uppbótarmann – en þessi regla gaf henni möguleika á að komast inn án þess að fá kjördæmakjörinn fulltrúa svo lengi sem þessum þröskuldi væri náð á landsvísu. Enda gekk kosningabarátta Ómars og félaga einkum út á að reyna að sleppa inn smkv. reglunni.
Ómar á endilega að berjast fyrir rýmkuðum rétti smáflokka á stjórnlagaþinginu – en hann mætti gera það án þess að skammast út í einu regluna sem færði honum líflínu í kosninunum fyrir fjórum árum.