Miðað við auglýsingarmyndbandið fyrir strumpamyndina sem frumsýnd verður á næstunni, er ekki von á góðu. Getur verið að Haraldur Sigurðsson sé þrátt fyrir allt hæfastur til að blása lífi í strumpana/skríplana utan teiknimyndasöguformsins?
Það jákvæða við gerð myndarinnar er þó að í tengslum við markaðssetninguna hefur verið gert stórátak í endurútgáfu á strumpabókum á ýmsum tungumálum. Von er á fjöldanum öllum af gömlu, klassísku strumpabókunum á ensku og Danirnir hafa gefið út slatta í ár og í fyrra.
Peyo gerði sjálfur u.þ.b. 15 strumpabækur (eftir því hvernig talið er). Af þeim komu að mig minni 8 út á íslensku. Eins og svo algengt er með bestu höfunda, voru síðustu bækurnar dottnar niður í væmni og krúttlegheit. Ef hann hefði lifað aðeins lengur er ljóst að næsta verkefni hefði verið sjálfstæð sería um ævintýri strumpabarna í viðureign við ungan Kjartan og kettlinginn Brand.
Eftir dauða Peyos tók sonur hans upp þráðinn og hefur samið rúmlega tíu strumpabækur. Mér sýnist fæstar þeirra teljast nein stórvirki.
Því miður hefur strumpafárið núna ekki leitt til endurútgáfu og/eða útgáfu á hefðbundnum strumpateiknimyndasögum á íslensku. Þess í stað hafa komið út nokkrar bækur á sama formi og Disney-bækurnar hvimleiðu. Þetta er synd, þar sem amk tvær sígildar strumpabækur (Geimstumpurinn og Gammurinn – bækur nr. 5 og 6) hafa aldrei komið út á íslensku og flestar hinar eru löngu ófáanlegar.