Ekki hafði ég mikla skoðun á því hver ætti að verða næsti Þjóðleikhússtjóri, en nú er valið einfalt – Júlíus Vífill er minn maður.
Einu sinni kom hann í heimsókn á safnið og var viðræðugóður. Á morgun flautaði hann svo á mig á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar og benti mér á að annað framdekkið væri gjörsamlega flatt.
Ég efast um að aðrir leikhússtjórar eða leikhússtjóraefni hefðu brugðist svona drengilega við. Stefán Baldursson hefði örugglega hlegið með sjálfum sér og látið mig aka á felgunni. Þórhildur Þorleifsdóttir hefði jafnvel rekið naglann í dekkið sjálf…
Júlíus Vífill fær mitt atkvæði. Verst að það séu ekki almennar kosningar um svona embætti á Íslandi.
* * *
Samti við Gísla í GG lögnum um að leggja klóak og dren. Framkvæmdir hefjast á miðvikudag. Mikið er ég feginn að vera laus við þetta helvíti.
Leigjandinn ætlar greinilega að skila lyklunum í áföngum. Á gær skildi hann eftir annan húslykilinn. Þá eru eftir: hinn lykillinn, bílskýlislykill, bílskúrshurðaropnarinn, geymslulykill og póstkassalykill. Með þessu áframhaldi verður hann búinn að skila af sér með vorinu…
* * *
Þór Akureyri gaf bikarleikinn sinn í handboltanum gegn Eyjamönnum. Það er ennþá september og þeir eru farnir að gefa leiki vegna kostnaðar við ferðalög. Það er ekki séns að Þórsarar haldi út mótið. Hætta líklega fyrir jól og fokka enn frekar upp óskiljanlegu keppnisfyrirkomulagi HSí. Ef HSÁ skiptir ekki aftur í tvær deildir mun liðum sem spila handbolta af einhverri alvöru fækka um eitt á ári hér eftir…
* * *
Sverrir var fínn á Stöð 2 í gær að ræða Laxness-bréfin. Óskaplega var Steinunn Sigurðar þó stressuð. Fyndið að Múrverjar hafi lent í því hlutverki að verja Hannes Hólmestein, en ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér lenda menn oft í því að verja fólk sem maður… – tja, á fátt sameiginlegt með.
* * *
Tæp vika í að Luton verði í beinni á Sky. Mánudagskvöldið 6. okt. hefur verið tekið frá fyrir lifandis löngu. Nú mega sportbarirnir skila inn tilboðum í verð á drykkjarföngum…