Boggan: Fótboltasaga mín 18/100

17. júlí 1985. ÍA 1 : Fram 2

1985 var sumarið þegar ég byrjaði að fylgjast með íslenskum fótbolta fyrir alvöru. Þá var ég tíu ára og fór með afa heitnum á flesta heimaleiki og slæðing af útileikjum. Þetta var gott ár til að byrja. Framarar voru funheitir undir stjórn nýs þjálfara, Ásgeirs Elíassonar og virtust ætla að stinga alla af. Eftir átta umferðir var forystan orðin átta stig.

Lokaleikur fyrri hluta mótsins var uppá Skaga. Við fórum með Akraborginni upp eftir og lögðum að landi rétt um það leyti sem flautað var til leiks. Framstuðningsmennirnir gengu í halarófu á völlinn en á leiðinni heyrðust fagnaðarlæti í fjarska. Skagamaður sem stóð úti á svölum á húsinu sínu hrópaði hæðnislega til okkar hvort við vildum ekki bara snúa strax við. Þegar á völlinn var komið uppgötvuðum við í hverju fyndnin lá. Staðan var 2:0 fyrir heimamenn eftir fimm mínútur.

Framarar biðu afhroð þennan dag. Lokatölur voru 6:2 og seinna markið okkar kom ekki fyrr en á lokasekúndunum. Við afi héldum þöglir í kaffi heim til Óla frænda á Skaganum. – Hefði ég verið aðeins eldri og reyndari, má ætla að þessi útreið hefði getað varað mig við því hversu brothætt Framliðið var þetta sumar.

Það voru ellefu dagar í næsta Framleik (ég mun aldrei skilja hvers vegna það er leikið svona stíft á Íslandi í maí en strjált í júlí). Og aftur voru mótherjarnir ÍA uppi á Skaga, nú í átta liða úrslitum bikarsins á miðvikudagskvöldi.

Aftur tókum við afi Akraborgina. Akraborgarferðir mínar á þessum tíma voru það fátíðar að mér þótti þær spennandi. Þvældist mikli dekkja, svipaðist um eftir hvölum af þilfarinu (sá aldrei neina) og skoðaði spilakassana. Á ferð með afa betlaði ég stundum nammi úr sjoppunni. Stillti mig þó um að suða um teiknimyndablöðin frá Siglufjarðarprentsmiðju sem þarna voru seld. Mig langaði aldrei í þessi blöð nema um borð í Akraborginni.

Ferðaáætlunin féll betur að leiktímanum í þetta skiptið og við komumst á völlinn í tæka tíð fyrir upphafsflautið. Ég sé á timarit.is að leikurinn hófst kl. 18:30, sem var óvenjulegt. 20:00 var nálega ófrávíkjanlegur leiktími yfir björtustu sumarmánuðina í miðri viku, meira að segja þegar möguleiki var á framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Það var hvasst á vellinum. Kannski óþarft að taka það fram: það er alltaf rok á Akranesvelli. (Fyrir mörgum árum var ég fréttaritari Moggans á leik á Skaganum. Í blaðamannastúkunni hékk uppi blað þar sem reynt var að sýna fram á með hitastigstölum, úrkomumælingum og vindrósum að völlurinn væri ekki veðravíti. Þetta er skólabókardæmi um hvernig ljúga má með tölfræði.

Heimamenn kunnu að nýta sér vindinn og byrjuðu vel. Skoruðu snemma leiks þegar sending fyrir fauk upp í markhornið og hefðu getað bætt um betur. Þegar frá leið náðu Framarar hins vegar völdum á vellinum. Guðmundur Torfason jafnaði eftir klukkutíma leik og einhvern veginn virtumst við alltaf líklegri eftir það. Það var svo rétt í leikslok sem Gummi Steins skoraði sigurmarkið eftir slæm mistök Birkis Kristinssonar.

Það var lítill tími til að fagna á vellinum, enda Akraborgin á leið til baka. Við skeiðuðum því aftur niður á höfn og um borð. Á næsta borði við mig sat Guðmundur Torfason, sem varla hafði haft ráðrúm til að skella sér í sturtu. Ég var auðvitað starströkk. Og strákahópur sem líklega hefur verið eitthvað búinn að fá sér neðan í því dansaði konga milli reyk- og reyklausa hluta salarins. Einn skellti félaga sínum á háhest og dansaði með hann… í gegnum þröngt dyraop. Þar lauk þeim konga-dansi.

Og vonbrigðin frá því ellefu dögum fyrr voru á bak og burt og ég jafn sannfærður eftir sem áður um óhjákvæmilegan Íslands- og bikarmeistaratitil.

(Mark ÍA: Árni Sveinsson. Mörk Fram: Guðmundur Torfason, Guðmundur Steinsson)