Nýliðarnir: Fótboltasaga mín 19/100

23. maí 1995. Fram 0 : Leiftur 4

Það vill enginn mæta nýliðum í fyrsta leik á Íslandsmóti. Það er gömul saga og ný að nýliðar í deild eru alltaf líklegir til að stela stigi eða stigum í upphafsleik, jafnvel á erfiðustu útivöllum. Væntanlega er það stemningin og gleðin yfir að vera kominn upp um deild sem hefur þessi áhrif, ásamt ómeðvituðu vanmati hins liðsins. Og til að bíta höfuðið af skömminni finnst fjölmiðlum fátt skemmtilegra en að velta sér upp úr þess háttar úrslitum og auka þannig enn á niðurlægingu „stóra“ liðsins.

Íslandsmótið 1995 hófst á Valbjarnarvelli þar sem Fram tók á móti Leiftri frá Ólafsfirði. Leiftur hafði áður leikið í efstu deild. Það var 1988 þegar liðið átti aldrei séns og fór beint niður aftur. Raunar var magnað að Leiftursliðinu skyldi hafa tekist að fara upp 1987, ef haft er í huga að félagið lék í fjórðu deild svo seint sem 1983.

Þetta árið voru Leiftursmenn þó betur undirbúnir. Leikmennirnir voru heldur ekki innfæddir skíðastökkvarar, heldur höfðu ýmsir reyndir leikmenn verið fengnir til liðsins, svo sem Gunnar Oddsson, Baldur Bragason, Sverrir Sverrisson og Gunnar Már Másson – sem var mögulega einhver óvinsælasti leikmaður deildarinnar hjá stuðningsmönnum annarra liða.

Því var spáð að Leiftursliðið yrði rétt fyrir neðan miðja deild. Frömurum átti hins vegar að vegna betur. Í spá aðstandenda liðanna í efstu deild hafnaði Fram í þriðja sæti á eftir KR og ÍA. Í ljósi þess sem síðar gerðist var sá spádómur óraunsær. Sumarið 1994 hafði Fram lokið keppni með aðeins tuttugu stig, en vissulega hafði leikmannahópurinn styrkst milli ára. Í huganum voru Framarar ennþá lið sem taldi sig eiga heimtingu á titlum og toppbaráttu á hverju ári.

Taugaveiklunin leyndi sér ekki hjá Framliðinu strax á fyrstu mínútunum. Margir leikmenn höfðu verið meiddir á undirbúningstímabilinu, sem hafði ekki gengið sérstaklega vel. Leiftursmenn voru grimmir og það sló Framara enn frekar út af laginu. Þá hjálpaði ekki að Valbjarnarvöllurinn var jafnlélegur og venjulega, ójafn og leiðinlegur.

Jón Þór Andrésson, einhver fyrrum Valsari sem ég hafði aldrei heyrt um áður, skoraði fyrsta markið og bætti svo tveimur við til að fullkomna þrennuna. Þetta var helmingurinn af mörkum hans í efstu deild á ferlinum. Páll Guðmundsson bætti svo fjórða markinu við um miðjan seinni hálfleikinn.

Niðurlæging Framara var algjör og það var lítil huggun í að helv. Valsararnir skyldu hafa tapað 8:1 í Vestmannaeyjum á sama tíma. Skellurinn gegn Leiftri reyndist afdrifaríkur. Nokkrum dögum síðar gerðu Framarar jafntefli við ÍBV á heimavelli – úrslit sem máttu teljast viðunandi í ljósi stórsigurs Eyjamanna í leiknum á undan. En stjórn hlutafélagsins á bak við meistaraflokkinn var enn rasandi yfir skellinum í upphafsleiknum og ákvað að segja Marteini Geirssyni upp störfum.

Í samanlagðri nærri 105 ára sögu Fram, hlýtur brottrekstur Marteins að fara á topp-10 listann yfir vondar ákvarðanir. Þú rekur ekki þjálfara eftir tvær umferðir, hvað þá þjálfara með goðsagnakennda stöðu innan félagsins sem leikmaður og leiðtogi um árabil.

Brottrekstur Marteins klauf félagið. Heilu fjölskyldurnar sem höfðu lifað og hrærst í félagsmálum á vegum Fram um árabil hurfu á braut. Marteinn sjálfur steig ekki fæti í Framheimilið í mörg ár á eftir. Það var fyrst þegar Framstrákarnir urðu Íslandsmeistarar í handbolta og gömlum meistaraliðum var boðið sem heiðursgestum að Marteinn fékkst á svæðið – enda hafði handboltadeildin ekki gert neitt á hans hlut. Þannig tókst að græða verstu sárin.

Ég hitti ennþá fólk sem hefur aldrei fyrirgefið brottreksturinn, enda er langt síðan ég komst að þeirri niðurstöðu að menn skyldu aldrei ráða þjálfara sem þeir treysta sér ekki til að reka. (Sú regla gildir raunar á mun fleiri sviðum í lífinu en í fótboltanum.)

Og auðvitað skilaði þessi ákvörðun engu. Fram féll þetta sumar með aðeins tólf stig, en fokdýran mannskap á fáránlegum samningum. Ég kenni Jóni Þór um!

(Mörk Leifturs: Jón Þór Andrésson 3, Páll Guðmundsson)