Battarnir: Fótboltasaga mín 22/100

25. janúar 1987. Fram 11 : HSÞ-b 4

Á níunda áratugnum fylgdi fótboltaárið almanaksárinu. Reykjavíkurmótið innanhúss fór fram í fyrstu viku ársins. Næstu helgarnar í mánuðinum voru svo fráteknar fyrir keppni á Íslandsmótinu sem fór fram í fjórum deildum í karlaflokki. Þar sem allir leikirnir fóru fram í Laugardalshöllinni, var þetta stíf dagskrá frá morgni til kvölds.

Fótboltahallirnar eru löngu búnar að drepa innanhússknattspyrnuna. Einhver félög streða reyndar við að keppa í Futsal, en það er ekki sama sport og ég fylgdist með fyrir aldarfjórðungi. Gamli innanhússboltinn var leikinn með handboltamörkum á velli sem afmarkaður var með lágu þili sem nota mátti sem batta. Leikmennirnir í markinu máttu ekki nota hendur, fyrir vikið stilltu öll lið fram útispilurum.

Ég gat varið heilu dögunum í Laugardalshöllinni á þessum túrneringum. Stundum með Baldri vini mínum, stundum einn. Önnur og þriðja deildin á Íslandsmótinu voru leiknar eina helgina en sú fyrsta og fjórða þá næstu. Þá fóru fyrstu leikirnir fram á föstudagskvöldinu, riðlakeppnin var kláruð á laugardeginum og úrslitakeppnin var svo leikin á sunnudag. Með því að hanga í Höllinni lon og don sá maður til skiptis efstudeildarliðin með frægu leikmönnunum spila og svo félög frá smábæjum á borð við Hafnir og Stokkseyri. Það var hálfklikkaður kokteill.

Keppnisfyrirkomulagið var skemmtilegt. Í hverri deild voru sextán lið í fjórum fjögurra liða riðlum. Þau léku hvert við annað, botnliðið féll niður um deild en toppliðið færðist upp. Í fyrstu deildinni fóru tvö efstu lið hvers riðils í fjórðungsúrslit og léku með útsláttarfyrirkomulagi að meistaratitli. Hver leikur skipti því máli. Maður gat séð lið berjast fyrir fjórðungsúrslitasæti en fá á sig mark á lokasekúndunum og falla niður um deild.

Annað sem gerði battaboltann spennandi var hvað hefðbundin styrkleikahlutföll vildu riðlast. Að sönnu voru bestu liðin í útiboltanum hverju sinni líkleg til afreka í þessari skrítnu grein, en svo voru nokkur smærri lið sem lögðu meiri rækt við greinina. Þannig voru Þróttarar um árabil eitt öflugasta liðið í innibolta þrátt fyrir misjafnt gengi utanhúss. Furðulegra tilfelli var þó HSÞ-b.

Íþróttafélögin í Þingeyjarsýslum skipta sér (eða skiptu amk) niður í A, B og C lið eftir staðsetningu. A-svæðið var strjálast og afskekktast og sendi því sjaldnast lið í landskeppni. B og C voru virkari. Hvers vegna mönnum datt ekki í hug að gefa þessum bræðingsliðum aðeins minna stofnanaleg nöfn er mér hulin ráðgáta.

Árið 1987 var HSÞ-b með lið í norðausturriðli þriðju deildar, sem kolféll það sumar og átti ekki afturkvæmt síðan. Sama ár lék liðið hins vegar í fyrsta sinn í efstu deild í innanhússboltanum og átti í mörg ár eftir að halda sér í efstu og næstefstu deild. Eitt árið sendu þeir meira að segja Valsmenn niður um deild. Þá hló marbendill.

HSÞ-b var einmitt lið sem ég hlaut að verða sökker fyrir. Félag sem ég gat ekki einu sinni staðsett á landakorti að spila meðal þeirra bestu. Leit í leikmannalista HSÞ-b frá þessum árum gefur ekki mörg kunnugleg nöfn. Þó var Róbert Agnarsson í liðinu, hann hafði spilað með Víkingum nokkrum árum fyrr og orðið Íslandsmeistari í tvígang. Sé á KSÍ-vefnum að hann átti landsleik að baki, markalaust jafntefli í vináttuleik gegn Bandaríkjunum á Laugardalsvelli. Það hefur væntanlega verið draumaleikur hins hlutlausa áhorfanda.

Framarar unnu sinn riðil, sem hafði á að skipa ÍK, Gróttu og Selfossi – allt neðrideildarliðum. Í fjórðungsúrslitunum var svo makasúpan gegn HSÞ-b. Loks kom röðin að fyrstudeildarliði í undanúrslitum, KR. Framarar urðu svo Íslandsmeistarar með 6:4 sigri á Selfyssingum.

(Markaskorarar: liggur ekki fyrir)