18. september 1991. Fram 2 : Panathinaikos 2
Í Hagaskólanum var heljarmikið punktakerfi fyrir mætingu, þar sem fært var inn í kladda og sérstakir kladdaverðir höfðu það hlutverk að koma gögnunum til skólaskrifstofunnar sem færði merkingarnar inn í miðlægt bókhald. Fyrir að koma of seint var einn punktur og tveir fyrir skróp í tíma – þó aldrei meira en átta fyrir heilan dag – ef ég man rétt. Með óaðfinnanlegri mætingu í hálfan mánuð gátu þessir punktar fyrnst.
Punktatöflurnar lágu frammi á skrifstofu öllum til aflestrar. Hverjum og einum bar að fylgjast með sinni punktastöðu og þarna gátu hnýsnir líka fengið gægjuþörfinni fullnægt. Skrópagemlingar og svefnpurrkur nutu engrar persónuverndar.
Það var með þennan bakgrunn sem ég byrjaði í MR haustið 1991. Skólinn var tvísetinn og við busarnir látin vera eftir hádegi í skólunum. Það þýddi að suma daganna var kennslu að ljúka klukkan hálf sjö um kvöldið í niðamyrkri. Sú reynsla ein og sér dugir til að gera mig skeptískann á klukkufrumvarp Bjartrar framtíðar.
Ég byrjaði fullur samviskusemi. Glósaði nákvæmlega og mætti í alla tíma. En svo kom leikurinn við Panathinaikos…
Á flóðljósalausum Laugardalsvelli og vafalítið með sjónvarpsútsendingu í Grikklandi í huga, var leikur Fram og Panathinaikos í fyrstu umferð Evrópukeppni meistaraliða settur niður kl. 17:30 á miðvikudegi. Það rakst á við síðustu kennslustundir dagsins: ég yrði að skrópa!
Ekki veit ég hvernig það atvikaðist, en einhverra hluta vegna fann ég mig knúinn til að fara til Árna Indriðasonar sögukennara og tilkynna honum að ég gæti ekki mætt í kennslustundina seinna um daginn. Mögulega hafði ég rekist á hann og ímyndað mér að þá þyrfti ég að skýra þessi fyrirhuguðu forföll – mögulega taldi ég mér trú um að gamli handboltajaxlinn myndi segja: „Blessaður vertu, þú ferð nú ekki að missa af þessum stórleik!“ – En samtalið varð vandræðalegt. Hann sendi mér alvörugefið augnaráð og tók fram að þetta teldust ekki gildar ástæður og ég myndi fá punkt í kladdann. Í eitt augnablik íhugaði ég að hætta við allt saman.
En svo leið að leiknum. Ég hljóp út úr skólanum og hoppaði upp í leigubíl (sem taldist þó hámark flottræfilsháttarins þegar maður var sextán). Slapp inn á völlinn um leið og flautað var til leiks.
Það má endalaust deila um hver sé besta frammistaða íslensks félagsliðs í Evrópukeppni og mörg góð lið geta gert tilkall til þess titils. Leikir Fram gegn Panathinaikos hljóta þó alltaf að fara nærri toppnum. Grikkirnir lágu til baka og beittu skyndisóknum, meðan Framararnir sóttu stíft. Niðurstaðan varð 2:2 jafntefli, sem gestirnir gerðu sig hæstánægða með.
Þeir grísku skoruðu fyrsta markið, en Fram jafnaði. Það gerði Jón Erling Ragnarsson sem var þessi dæmigerði íslenski markaskorari frá níunda áratugnum. Við erum eiginlega alveg hætt að framleiða þá týpu.
Fram skoraði svo aftur. Harðjaxlinn Pétur Arnþórsson þrumaði í netið eftir undirbúning Baldurs Bjarnasonar áður en Grikkir jöfnuðu.
Íslensku blöðin hrósuðu Pétri Ormslev og nafna hans Arnþórssyni mest fyrir leikinn. Sjálfum fannst mér Baldur Bjarnason bestur, þótt hann væri í raun ekki nema á hálfum dampi vegna þrálátra meiðsla. Í seinni leiknum, í Aþenu, mætu 46 þúsund áhorfendur – ætli það sé met á leik með íslensku félagsliði? Þar fengu Framarar fjölmörg góð tækifæri til að slá gríska stórliðið úr keppni, en markalaust jafntefli varð niðurstaðan og Panathinaikos skreið áfram á útivallarmarki. Bara tilhugsunin um sambærileg úrslit í leik íslensku og grísku meistaranna væri fráleit í dag.
En ég skrópaði sem sagt í minni fyrstu menntaskólakennslustund til að mæta á völlinn og varð hinn vandræðalegasti næst þegar ég hitti Árna Indriðason. Þessi háttvísi átti hins vegar eftir að brá af mér hratt. Nokkrum dögum síðar var ég plataður í ræðulið og byrjaði þá þegar að skrópa í tímum – og mjög fljótlega tileinkaði ég mér það hugarfar að mæting í tíma væri frumlegur valkostur sem vel mætti íhuga ef ekki lægju fyrir einhver verkefni í félagslífinu.
(Mörk Fram: Jón Erling Ragnarsson, Pétur Arnþórsson. Mörk Panathinaikos: Louis Chrisodoulou 2)