ÓL: Fótboltasaga mín 26/100

26. september 2000. Chile 1 : Kamerún 2

Haustið 2000 fór ég til náms til Edinborgar í Skotlandi. Mig langaði að læra félagsfræði vísindaþekkingar (hroðvirknisleg þýðing á Sociology of Scientific Knowledge) og lét Skúla Sigurðsson vin minn benda mér á vænlega skóla. Niðurstaðan var sú að Lancaster, Edinborg eða Holland kæmu helst til greina. Ég valdi Edinborg, einkum út af borginni sjálfri.

Ég hlakkaði mikið til að búa í erlendri borg og fékk snemma þá hugmynd að snjallt væri að mæta tímanlega og taka viku í að kynnast borginni sem túristi áður en skólinn byrjaði. Sú áætlun reyndist nokkuð gölluð.

Stúdentagarðarnir opnuðu ekki fyrr en daginn áður en innritunin í skólann hófst. Ég þurfti því að finna mér ódýrt gistiheimili, sem var ekki alveg jafn auðvelt í gegnum netið árið 2000 og í dag. Ég endaði á Bed & Breakfast í Leith, sem reyndist hafa krítað nokkuð liðugt í lýsingunni á því hversu miðsvæðis það væri. Tími fartölva með þráðlausu interneti á hverju horni var ekki runninn upp. Ég varði því viku í frekar ómarkvissa göngutúra um Leith og Edinborg, eyddi stórfé á internetkaffihúsum og las blöðin á frekar sjabbý pöbbum í grennd við gistiheimilið.

Herbergið var ekkert sérlega vistlegt, en þó með sjónvarpstæki. Það kom sér vel þar sem Ólympíuleikarnir í Sidney stóðu yfir og hægt að drepa tímann með því að sitja og góna. Strax fyrsta kvöldið horfði ég á undanúrslitaleik Chile og Kamerún í fótboltakeppninni.

Fótboltakeppni ÓL er bastarður. Lengi vel átti að heita að hún væri áhugamannakeppni, sem þýddi að Austantjaldsríkin tefldu fram sterkum liðum og unnu alltaf. Danir, Norðmenn og Íslendingar voru lengi uppteknir af því að vera áhugamenn og tóku Ólympíukeppnina því alvarlega – Ísland var t.a.m. líklegra til að taka þátt í forkeppni ÓL en HM eða EM.

Síðar var reglunum breytt og fótboltakeppninni breytt í ungmennamót, þar sem U23-ára liðin kepptu en máttu þó styrkja leikmannahópinn með þremur eldri mönnum. Útkoman varð skringilegur bræðingur þar sem keppnisþjóðir taka mótið mjög misalvarlega. Afríkuþjóðir hafa lagt mikla áherslu á ÓL, en sterkari Evrópulöndin ekki. Einhvers staðar las ég að Brasilía leggi mjög mikið upp úr að vinna Ólympíuleika, því þann bikar vanti í safnið. Argentínumenn eru á hinn bóginn mun afslappaðri gagnvart þessum titli.

Sumarið 2000 ætlaði Chile sér að vinna. Ivan Zamorano var einn af eldri leikmönnunum í hópnum og af öðrum leikmönnum mætti nefna David Pizzaro. Í riðlakeppninni vann Chile góðan sigur á Spánverjum og Nígeríumenn í fjórðungsúrslitum, 4:1. Ég gat vel unað Chile-mönnum að vinna keppnina og hélt með þeim.

Undanúrslitaleikurinn reyndist frekar leiðinlegur, eins og stundum verður með slíka leiki. Bæði lið voru varfærin og lögðu mesta áherslu á að halda hreinu. Þegar Kamerún skoraði sjálfmark þegar tæpt kortér var eftir, virtist björninn unninn. Chile-menn ákváðu hins vegar að pakka í vörn og gáfu eftir öll völd á miðjunni. Hverjum manni, öðrum en þjálfara þeirra, mátti vera ljóst hvað gerðist næst.

Þegar fimm mínútur voru eftir jafnaði Kamerún. Þá reyndu Chile-menn að færa sig aftur fram á völlinn, en öll spilamennska þeirra hafði riðlast og á lokamínútunni fengu Afríkumennirnir víti og Lauren skoraði sigurmarkið. Hágrátandi Chile-menn lágu út um allan völl í leikslok en hinir dönsuðu. Kamerún vann að lokum gullverðlaunin eftir sigur í vítakeppni á Spánverjum. Ekki horfði ég á þann leik, hef líklega verið vafrandi milli internetkaffihúsa í Old Town að lesa blogg og sjá hvort Beta rokk eða Katrín.is væru búnar að setja inn nýjar færslur. Því þannig gerði maður nefnilega árið 2000.

(Mark Chile: Patrice Abanda (sjálfsmark). Mörk Kamerún: Patrick M´Boma, Lauren)