Varaskeifan: Fótboltasaga mín 32/100

 16. júlí 2009. Sigma Olomouc 1 : Fram 1

Ég man ekkert hvaða liði ég hélt með í Tékkóslóvakíu sem pjakkur. Það gæti þó hafa verið Sparta Prag. Þegar kom að Vestur-Evrópu hélt ég sjaldnast með bestu liðunum ef frá var talið PSV í Hollandi. Í Austur-Evrópu náðu toppliðin frekar inn á radarinn. Ég hélt að minnsta kosti ekki með Sigma Olomouc.

Sigma Olomouc var eitt af þessum ótal leiðinlegu Austur-Evrópuliðum sem þeir sem lúslásu úrslitin í Evrópukeppnunum þekktu. Þetta var lið númer 3-6 í Tékkóslóvakíu, af þeirri gerðinni sem gjaldkerar íslenskra liða óttuðust mest að dragast gegn á níunda áratugnum. Á þeim árum þýddi þátttaka í Evrópukeppni nefnilega ekki sjálfkrafa milljónir í kassann. Tekjurnar skiluðu sér bara ef ferðalagið væri nógu stutt eða andstæðingarnir drægju áhorfendur á völlinn. Sterk lið frá austurblokkinni voru ávísun á ferðakostnað, tapleiki og fáa áhorfendur.

2009 voru önnur sjónarmið uppi. Þegar Fram komst í Evrópudeildina haustið 2008 gátu menn strax farið að eyða hagnaðinum í huganum. Í fyrstu umferð fengju Framarar vænan skilding í vasann og lið úr Norðvestur-Evrópu, sem góðir möguleikar væru á að vinna. Sigur þýddi svo ennþá meira fé og draumar um frekari sigra.

Í fyrstu umferð dróst Fram gegn The New Saints frá Wales. Látið sakleysislegt nafnið ekki blekkja ykkur. Liðið hét einhverju óskiljanlegu kymrísku nafni, uns fyrirtækið Total Networks Solutions keypti sjálft nafnið í styrktarsamningi. Þegar UEFA reyndi að skerast í leikinn var nafninu breytt í The New Saints – til að skammstöfunin héldist: TNS.

Fram lék ekki vel í fyrri leiknum gegn TNS í Laugardalnum og vann bara 2:1. Sjálfur minnist ég leiksins einkum fyrir að það var brakandi blíða og ég mætti léttklæddur á völlinn – nánar tiltekið í grænum og hvítum þverröndóttum pólóbol. Það var ekki fyrr en ég settist í stúkunni að ég mundi að gestirnir spiluðu einmitt í Celtic-búningunum. Rats!

Þrátt fyrir rýrt veganesti fóru Framarar áfram. Unnu 1:2 í Wales og við tóku leikir gegn Sigma Olomouc.

Fyrirfram hljómaði þokkalegt tékkneskt lið eins og ósigrandi andstæðingur, einkum þar sem Framliðið var rétt fyrir neðan miðja deild. En fyrri leikurinn var þó á útivelli og það þykir alltaf góðs viti í þessari keppni.

Viðureignin var sýnd á tékkneskri sjónvarpsstöð. Svo sem ekki óvænt. Á meginlandinu eru menn fótboltaþyrstir í júlímánuði svo ekki þarf mikið til að leikir rati í beina útsendingu. Einhver Framararinn gróf upp straum á útsendinguna og deildi á spjallborðinu. Í kjölfarið lágu svo tugir Framara um land allt yfir höktóttri útsendingu frá Olomouc, sem smkv. Wikipediu er vinaborg Flórens. Flórens virðist þó heldur hafa dregið stutta stráið í því sambandi.

Í gegnum skrykkjótta útsendinguna mátti augljóslega sjá að leikmenn Sigma voru flinkari, stærri og sterkari. Þeir voru hins vegar ekki í fullri leikæfingu (enda hásumar) og í því var vonin fólgin. Markmið Framara var að pakka í vörn en þar kom upp augljóst vandamál: burðarás Framvarnarinnar þetta sumarið var Auðun Helgason sem lá aftastur og stýrði hinum miðverðinum, Kristjáni Haukssyni.

Auðun hafði hins vegar nælt sér í þriggja leikja bann í Evrópukeppni fyrir einhver apakattalæti með FH nokkrum misserum fyrr og varð því fyrst löglegur í heimaleiknum. Í hans stað kom Jón Guðni Fjóluson, frekar luralegur strákur frá Suðurlandi sem leikið hafði fáeina leiki árið áður án þess að vera sérstaklega minnisstæður. Það sem af var sumri hafði Jón Guðni byrjað í þriðjungi leikjanna en annars verið á bekknum eða komið inná þegar farið var að draga af eldri mönnunum.

Ég held að engum Framara hafi staðið á sama með að Jón Guðni þyrfti að vera í byrjunarliðinu á erfiðum útivelli. Þær áhyggjur reyndust þó óþarfar. Framararnir pökkuðu í vörn frá fyrstu mínútu. Liðið var gríðarlega agað og Þorvaldur Örlygsson vissi nákvæmlega hvernig leika skyldi. Boltanum var neglt fram í sífellu og þá sjaldan sem hornspyrnur eða aukaspyrnur gáfust á vallarhelmingi andstæðinganna  voru stóru mennirnir sendir fram. Og það var einmitt eftir slíka hornspyrnu á 22. mínútu að Jón Guðni skallaði í netið.

Að svo miklu leyti sem hægt er að ærast fyrir framan tölvuskjá og höktandi vefútsendingu, einn á skrifstofunni sinni á miðjum vinnudegi, gekk ég af göflunum. Við tók langur og taugatrekkjandi tími…

Allt Framliðið dró sig í vörn og Tékkarnir dældu í sífellu boltum inn í teiginn. Stjáni Hauks og Jón Guðni skölluðu allt frá marki og Tillen og Halldór Hermann tækluðu hvern þann andstæðing sem hætti sér of nærri vítateignum. Hannes varði nokkrum sinnum frábærlega og tíminn leið. Á lokamínútunni tókst Tékkunum að jafna og einhvern veginn vissi maður þá að draumurinn væri úti.

Þótt Tékkarnir væru betra fótboltalið, hefði ég treyst Frömurum til að verja 1:0 forystu á Laugardalsvelli. 1:1 var einhvern veginn miklu veikara. Það kom líka á daginn. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Tékkarnir tvívegis eftir hlé. Þá var ég staddur austur á Neskaupstað og þurfti að sætta mig við að lesa textalýsingar á MBL og fá SMS frá vinum á vellinum. Það var eitthvað rangt við að geta ekki horft á Framarana á heimavelli, eftir að hafa séð útileikinn í fokkíng Olomouc…

Það kaldhæðnislega við einvígið var þó að búið var að draga í næstu umferð og sigurvegararnir myndu mæta Aberdeen frá Skotlandi. Þar með var til mikils að vinna því Aberdeen er jú breskt fótboltalið og slík viðureign hefði tryggt bæði áhorfendafjölda og sjónvarpsfrægð! Að lokum fór það samt svo að Sigma Olomouc skellti Aberdeen 8:1 samanlagt og tryggði sér leik gegn Everton í næstu umferð. Óðinn má vita hvernig viðureign Fram og Aberdeen hefði farið.

En annað breyttist eftir leikinn í Olomouc: Jón Guðni Fjóluson varð nýr leikmaður. Allt í einu fór þessi stóri, en stundum dálítið klunnalegi unglingur, að færa sig upp á staftið. Þegar Fram fékk horn trítlaði hann ekki lengur fram á við af skyldurækni eins og hávaxinna varnarmanna er siður, heldur stímdi hann inn í markteiginn eins og ákafur framherji, slóst og hrinti – og reyndi að skora.

Skömmu síðar fór Jón Guðni, uppfullur af sjálfstrausti, að spreyta sig á aukaspyrnum líka – þrátt fyrir að bæði Paul McShane og Hjálmar Þórarinsson væru fyrirfram líklegri kandídatar í þá iðju. Og í hvert sinn sem Jón Guðni stillti boltanum upp fyrir framan teiginn urðu stuðningsmennirnir spenntir, því allir vissu að hann myndi ALDREI senda til hliðar eða vippa inn í teiginn, heldur yrði ALLTAF neglt á markið.

Í þeim fjórtán leikjum sem Jón Guðni kom við sögu eftir fyrri viðureignina gegn Olomouc sumarið 2009, skoraði hann sex mörk, sem er fáránlega gott hjá miðverði. Það dugði og vel rúmlega það til að bræða hjörtu allra stuðningsmannanna. Strákurinn frá Þorlákshöfn er hiklaust einn af uppáhaldsleikmönnum mínum hjá Fram á 21. öldinni.

(Mark Sigma Olomouc: Daniel Rossi. Mark Fram: Jón Guðni Fjóluson)