5. ágúst 1987. Fram 6 : Völsungur 0
Er til mikið göfugri starfstétt en varamarkverðir? Jújú, einhver kynni að nefna barnalækna og hjúkrunarfólk sem starfar á stríðshrjáðum svæðum: en þau fá þó a.m.k. að hafa eitthvað fyrir stafni. Varamarkvörðurinn mætir á allar æfingar, klæðir sig upp fyrir leikinn og situr svo bara og bíður. Hann er til taks ef aðalmarkvörðurinn meiðist, en annars hefur hann engu hlutverki að gegna. Hinir varamennirnir geta reiknað með að vera settir inná ef breyta þarf leikskipulaginu en þótt leikurinn sé löngu unninn setur enginn varamarkmanninn inná í einhverju flippi.
Það er svo sem hægt að botna í varamarkvörðum sem eru ungir að árum – hyggjast læra við fótskör aðalmarkvarðarins og fá sinn séns síðar. En hvað þegar varamarkverðirnir eru eldri og augljóslega lakari en sá númer eitt? Hver er þá drifkrafturinn?
Ólafur K. Ólafs var slíkur maður. Hann átti að baki heilt tímabil með Þrótti í efstu deild, en gekk til liðs við Fram fyrir sumarið 1987. Þar sat hann á bekknum hjá Friðriki Friðrikssyni og síðar Birki Kristinssyni og kom aldrei við sögu. Utan einu sinni.
Völsungar mættu í heimsókn í Laugardalinn þann fimmta ágúst og léku frestaðan leik. Framararnir höfðu ekki náð nægilega vel að fylgja eftir Íslandsmeistaratitlinum frá árinu áður. Voru í fimmta sæti þegar þarna var komið sögu. Með Völsungsleiknum snerist hins vegar stríðsgæfan. Fram vann fimm sinnum og gerði tvö jafntefli í sjö síðustu deildarleikjunum og hafnaði í öðru sæti. Leikurinn gegn Völsungi vannst með mestum mun, 6:0.
Það var reyndar öðrum fremur einum Völsungnum að þakka að sigurinn varð svo sannfærandi. Eftir hálftíma leik fékk Fram billega vítaspyrnu þegar boltinn hrökk úr greipum markvarðar Húsvíkinga og í hönd eins samherjans. Línuvörðurinn gaf merki um vítaspyrnu við litla hrifningu gestanna. Einn þeirra reifst og skammaðist uns hann fékk gult spjald. Ekki hætti hann þá heldur hélt áfram uns dómarinn lyfti rauða spjaldinu.
Dómarinn í þessari viðureign var Kjartan Ólafsson, KR-ingur. Við kynntumst miklu síðar þegar Kjartan varð samstarfsmaður minn á Minjasafni Orkuveitunnar. Hann sinnti þeim störfum af mikilli kostgæfni, þrátt fyrir að eiga við erfið veikindi að stríða. Ætli það hafi liðið sá dagur á safninu án þess að við Kjartan höfum skrafað eitthvað um fótbolta?
Pétur Ormslev skoraði úr vítinu og setti svo annað undir lok hálfleiksins. Þá voru úrslitin ráðin og spurningin bara hversu stór sigurinn yrði. Gummi Steins bætti tveimur mörkum við og Ragnar Margeirsson skoraði 5:0 þegar meira en hálftími var eftir. Græðgisgrísinn ég var farinn að sjá fyrir mér tveggja stafa tölu, en Völsungarnir reyndu að halda andlitinu og Framararnir stigu af bensíngjöfinni þegar leið á.
Í einni af fáum sóknum hvítklæddra (því blessunarlega fengu Völsungar ekki að leika í grænu treyjunum sínum) varð Friðrik Friðriksson fyrir hnjaski og þurfti að yfirgefa leikvöllinn. Ólafur K. Ólafs setti á sig hanskana og hjóp inná. Þetta þóttu mér gríðarlega merkileg tíðindi.
Ég vonaði heitt og innilega að Ólafur myndi nú halda hreinu í sínum fyrsta og mögulega eina leik. Það hafa þó varla liðið nema 1-2 mínútur uns tveir Völsungar komust í skyndisókn. Ólafur varði glæsilega frá öðrum, en knötturinn barst til hins sem þurfti bara að rúlla honum í tómt markið. Hann skaut beint framhjá. Skömmu síðar þurfti Ólafur aftur að taka á honum stóra sínum og undir lokin skaut einn Norðanmaðurinn í stöngina. Eins og til að fullkomna ranglæti heimsins potaði Pétur Arnþórsson inn sjötta markinu í uppbótartíma hinu megin.
Leiknum var lokið og ég klappaði í stúkunni meðan leikmennirnir sungu siggi-saki sigursönginn, sem öllum Frömurum finnst rosalega töff en eru líklega einir um þá skoðun. Ég var sáttur við sigurinn en jafnvel enn glaðari að Ólafur K. Ólafs hefði haldið hreinu.
Ólafur lék aldrei aftur deildarleik fyrir Framara, enda kom Birkir Kristinsson í markið sumarið 1988 og missti aldrei út leik. Það var svo ekki fyrr en mörgum árum síðar að Ólafur skaut aftur upp kollinum í Framleik. Það var sumarið 1999, þegar hann sat nokkra leiki á bekknum hjá Valsmönnum, þá 42 ára gamall. Og Ólafur kom einmitt inná gegn Fram eftir að hinn átján ára gamli Hjörvar Hafliðason lét reka sig útaf.
Ólafur fékk strax á sig mark úr vítinu og lét síðar Hollendingin Oerlemans fara illa með sig í seinna marki Framara. Honum var ekki treyst til að byrja inná í næsta leik meðan Hjörvar tók út leikbannið, heldur var annar gamall markvörður með Fram-tengingu, Haukur Bragason, sóttur í staðinn. Ólafur fór bara aftur á bekkinn – væntanlega hinn sáttasti. Lengi lifi varamarkverðir!
(Mörk Fram: Pétur Ormslev 2, Guðmundur Steinsson 2, Ragnar Margeirsson, Pétur Arnþórsson)