24. júlí 2011. Úrúgvæ 3 : Paragvæ 0
Fyrsta Suður-Ameríkukeppnin í fótbolta, Copa America, var haldin árið 1916. Af því tilefni verður haldin aukakeppni á 100 ára afmælinu, þrátt fyrir að næsta reglubundna Suður-Ameríkukeppni fari fram árið áður. Og hvar verður afmælismótið haldið? Jú, í Bandaríkjunum – hvar annars staðar? Kapítalisminn lætur ekki að sér hæða.
Annars verður þetta aukamót ekkert úr stíl við annað í sögu þessa elsta stórmóts í heimsknattspyrnunni. Margoft hefur verið hrært í skipulaginu. Í einhver skipti fóru leikirnir fram heima og heiman, án þess að um einn mótshaldara væri að ræða. Gestaþjóðir hafa sömuleiðis oft tekið þátt. Einkum Mexíkó en einnig t.d. Bandaríkin og Japan. Og árabilið hefur verið breytilegt: eitt ár, tvö ár, þrjú eða fjögur. Nýjasta reglan segir þó að keppa skuli á fjögurra ára fresti.
Það veltur á keppnisstaðnum hversu mikið maður nennir að fylgjast með Suður-Ameríkukeppninni. Austast í álfunni er tímamismunurinn gagnvart Íslandi alveg viðráðanlegur, en annars staðar eru leikirnir um hánótt. Með auknum gæðum á netútsendingum hefur freistingin til að glápa fram á nætur þó aukist allverulega.
2011 var keppt í Argentínu og ég fylgdist vel með. Mínir menn í heimsfótboltanum, Úrúgvæ, höfðu komist í undanúrslitin á HM sumarið áður og ætluðu sér stóra hluti. Hins vegar vantaði talsvert upp á að fjölmiðlar sýndu liðinu tilhlýðilega virðingu. Þess í stað var fjallað um mótið líkt og það væri bara langur formáli að óumflýjanlegum og epískum úrslitaleik milli Argentínu og Brasilíu. Keppnisfyrirkomulagið tók líka mið af því. Þannig lögðu menn lykkju á leið sína til að tryggja að Brasilía og Argentína gætu ekki lent saman fyrr en í úrslitaleiknum, jafnvel þótt önnur þjóðin myndi misstíga sig og aðeins lenda í öðru sæti síns riðils.
Margt fer öðru vísi en ætlað er. Risarnir tveir féllu úr keppni í átta liða úrslitum. Brasilía tapaði í vítakeppni gegn Paragvæ eftir 0:0 jafntefli þar sem síðarnefnda liðið pakkaði í vörn frá fyrstu mínútu. Úrúgvæ og Argentína gerðu hins vegar 1:1 jafntefli og í vítakeppninni klikkaði Tévez einn manna. Montrassarnir voru úr leik og gjaldkeri Knattspyrnusambands Argentínu fór að svitna.
Súarez fleytti Úrúgvæ auðveldlega í úrslitaleikinn með tveimur mörkum gegn Perú. Í hinum undanúrslitaleiknum vann Paragvæ aftur í vítakeppni eftir markalausan leik. Sú staða var því uppi að Paragvæ var komið í úrslitaleikinn eftir fimm jafntefli, þar af þrjú markalaus. Og planið var greinilega að halda áfram á þeirri braut.
Knattspyrnublaðamenn voru sammála um að þetta mætti ekki gerast. Tilhugsunin um að þjóð gæti unnið álfumót án þess að vinna leik væri óbærileg. Allir góðir menn sameinuðust því um að halda með Úrúgvæ – knattspyrnunnar vegna.
Ég var staddur í Neskaupstað í heimsókn hjá tengdapabba þegar úrslitaleikurinn fór fram og horfði því á hann á litlum tölvuskjá í höktandi útsendingu, þar sem ég átti fullt í fangi að slökkva á auglýsingagluggum sem spruttu upp í sífellu. Áhyggjur knattspyrnuunnenda reyndust hins vegar óþarfar. Úrúgvæ spilaði andstæðingana sundur og saman frá fyrstu mínútu.
Súarez skoraði eftir tíu mínútur og var óheppinn að bæta ekki fleiri mörkum við. Paragvæ veðjaði á föst leikatriði, en komst ekkert áfram gegn vörn Úrúgvæ. Óscar Tabárez er afbragðsþjálfari og fátt gerir hann betur en að láta lið sitt verja forystu. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Forlán 2:0 og innsiglaði svo sigurinn á lokamínútunum, 3:0. Allir kættust nema einræðisherrabörnin frá Paragvæ og bitru Argentínumennirnir sem hættu að fylgjast með mótinu þegar lið þeirra féll úr keppni.
Diego Forlán er einn af mínum uppáhaldsleikmönnum fyrr og síðar. Ferill hans er glæsilegur, einkum árin hjá Atletico Madrid þar sem hann var einhver skæðasti framherji spænsku deildarinnar. Samt geta íslenskir íþróttafréttamenn aldrei talað um Forlán án þess að fara að þvæla um „misheppnaða dvöl hans hjá Manchester United“, sem er í fyrsta lagi til marks um að sjóndeildarhringurinn takmarkist við enska boltann og í öðru lagi tóm steypa, þar sem Forlán var hjá United á þeim árum þar sem öll spilamennskan gekk út á að þjónusta van Nistelrooy.
Í dag er Forlán á lokametrunum áður en hann verður sendur í límverksmiðjuna og er rétt að bæta við viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn með því að spila í Japan. Hann mun þó pottþétt skilja síðustu bensíndropana eftir fyrir HM í Brasilíu í sumar. Ó hvað það verður gaman þegar hann sendir Englendinga heim úr riðlakeppninni!
(Mörk Úrúgvæ: Luis Súarez, Diego Forlán 2)