Fótboltasaga mín 63/100: Fram Vest

27. júlí 2003. KR 3 : Fram 1

Sumarið 2003 bjargaði Fram sér frá falli í lokaumferðinni. Ekkert óvænt við það. Þetta var fimmta árið í röð sem við biðum fram í átjánda leik með að tryggja sætið. Það var orðið ansi hvimleitt.

Annað sem var hvimleitt, var hin reglubundna heimsókn í Frostaskjólið þar sem við virtumst alltaf tapa óháð því hvort liðið væri gott eða lélegt þá stundina. Þetta var þeim mun ergilegra þar sem ég átti heima á Hringbrautinni, við hliðina á JL-húsinu og mátti þola glottandi KR-inga hvarvetna í nærumhverfinu.

Til að bíta höfuðið af skömminni héldu KR-ingar úti blaði sem borið var út um allar trissur, jafnvel inn í hverfi sem flestir myndu skilgreina sem Valssvæði. Óskar Hrafn var ritstjóri og honum var sérlega í nöp við Framara, sem hann kallaði einatt dúkkulísur.

Valur Norðri félagi minn og Framari bjó í sama stigagangi og ég. Hann var meira að segja formaður húsfélagsins eftir að hafa eins og fábjáni asnast til að gera athugasemd við tæknilegt atriði í ársreikningi á aðalfundi – höfðum við þó lofað hvor öðrum að þegja til að lenda ekki í stjórn fyrir fundinn.

Við Valur ákváðum að bregða á leik fyrir leik KR og Fram í elleftu umferð. Við gáfum út blað. Kölluðum það „Fram Vest“ og sögðum útgefandann vera Átthagafélag Framara í Vesturbæ. Í ritstjórnargrein bentum við á að í Vesturbænum byggi fólk sem héldi með ýmsum félögum en sætti ofsóknum og andlegu ofbeldi:

„Ætla má að fasteignaverð í Vesturbænum sé til muna lægra en ella vegna þess beina og óbeina eineltis sem stuðningsmenn annarra félaga mega þola í hverfinu. Það er fyrir þetta fólk sem ákveðið var að ráðast í útgáfu þessa blaðs. Markmiðið er að standa vörð um hagsmuni fasteignaeigenda í Vesturbænum, sem og til að auka og efla samkennd hinna fjölmörgu Framara sem nú þegar búa í hverfinu. En fyrst og fremst er þetta gert fyrir börnin. Þau eru jú framtíðin.“

Annað í blaðinu var í þessum dúr. Ritið var átta síður í A4-broti. Á forsíðu var mynd af Ágústi Gylfasyni og Þorbirni Atla. Inni í blaðinu voru lofgreinar um Fram, sem flestar innihéldu lítt duldar pillur í garð KR-inga, svo sem athugasemd um að Frömurum myndi ekki koma til hugar að festa kaup á reykfylltri krá sem nokkurs konar félagsheimili – sem vísaði í misheppnað Rauða ljóns-ævintýri KR-inga.

Á miðopnu voru rifjaðir upp nokkrir góðir sigrar Framara – einkum á KR. Og heil opna var lögð undir „atvikið“ – svívirðilegt mark KR-inga gegn Frömurum árið 1995. Það var einstaklega skemmtilegt að hnoða efninu saman og þetta skrifaði sig nánast sjálft.

Við skrifuðum á innsíðu að blaðið væri gefið út í 5000 eintökum. Veruleikinn var sá að við ljósrituðum ekki nema fáein hundruð. Við bárum blaðið út í flestallar blokkirnar í grennd við KR-völlinn og í nokkur valin hús, til dæmis stjórnarmanna í KR á víð og dreif um hverfið til að telja mönnum trú um að við hefðum í raun verið svo galnir að búa til mörgþúsund eintök.

Leikurinn fór fram og við töpuðum eins og búast mátti við. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar þetta ár, en Fram var í botnsætinu þegar þarna var komið sögu með átta stig. KR komst í 2:0 áður en Ragnar Árnason minnkaði muninn í 2:1 þvert gegn gangi leiksins. Í kjölfarið fengu Framarar reyndar nokkra bullandi sénsa til að jafna, en svo kom einn svarthvítur og kláraði leikinn undir lokin.

Við Valur náðum samt minnst að hugsa um viðureignina sjálfa út af öllu fárinu sem hlaust af blaðinu. KR-ingarnir trylltust. Stjórn knattspyrnudeildar KR hafði samband við KSÍ og krafðist þess að stjórn Fram myndi biðjast afsökunar á útgáfu blaðsins. KSÍ bar þá kröfu áfram. Hvort tveggja var snargalið í ljósi þess að við Valur höfðum sett nöfn okkar sem ábyrgðarmenn á áberandi stað á blaðsíðu tvö. Engum datt þó í hug að hafa samband beint við okkur.

Guðjón Guðmundsson flutti frétt á Stöð 2 og Bylgjunni af þessari „ósvífnu“ útgáfu Framara. Aftur var ekki orð um að við Valur hefðum gert þetta í okkar eigin nafni. Ég fékk fregnir af því að einhverjir í forystu Fram hafi verið við það að fara á taugum og íhugað að senda frá sér einhvers konar yfirlýsingu – þar til skynsamari menn settu hnefann í borðið og bentu á hversu fáránlegt það væri ef félagið ætlaði að fara að tjá sig um einhver svona einkauppátæki stuðningsmanna úti í bæ.

Það voru ákveðnir hlutir sem fóru meira fyrir brjóstið á KR-ingum en aðrir. Einkum var það pistillinn „Hvorum hópnum vilt þú tilheyra?“ sem náði að strjúka mönnum öfugt. Þar töldum við upp nokkra nafnkunna KR-inga og gáfum lyndiseinkunn. Gunnar Smári Egilsson var sagður sjálfhverfur sófaspekingur í sjúskuðum leðurjakka. Mörður Árnason var sagður afundinn íslenskufræðingur sem fyllti orðabókina af dónaskap. Og svo var það klausan sem þótti svívirðilegust: „Björgúlfur (svo!) Guðmundsson, athafnamaður sem auðgaðist á að selja áfengi í því Evrópuríki þar sem alkóhólismi er stærsta vandamálið.“

Önnur klausa sem þótti fyrir neðan beltisstað var: „Sannir stuðningsmenn Fram gæta þess ætíð að móðga ekki eða særa andstæðinga sína með köllum og hrópum. Þannig myndu Framarar aldrei láta sér til hugar koma að hrópa niðrandi ummæli um leikmenn hins liðsins, t.d. vegna litarafts þeirra. Því miður hafa ekki allir knattspyrnuáhugamenn þann þroska til að bera.“

Sem minnir mig á það – ég þarf eiginlega að koma eintaki á Þjóðarbókhlöðuna við tækifæri. Hver er síminn hjá timarit.is?

(Mörk KR: Veigar Páll Gunnarsson 2, Kristinn Hafliðason. Mark Fram: Ragnar Árnason)