13. febrúar 2012. Fram 5 : KR 0
Fótbolti er móðir rassvasasálfræðinnar. Í grunnin er íþróttin einföld og býður ekki upp á miklar fabúlasjónir fram og til baka, en engu að síður er hún rædd linnulítið í blöðum, útvarpsþáttum og einkasamtölum. Út frá því spretta misgáfulegar kenningar um sálfræðilegt mikilvægi hinna ólíklegustu atriða. Hver kannast ekki við hugleiðingar um „góðan eða vondan tíma til að skora eða fá á sig mark“?
Af sama toga eru hugleiðingar um hvort betra eða verra sé að mæta tilteknum andstæðingum á þessum tíma eða hinum? Er betra að mæta toppliðinu þegar það er nýbúið að tapa leik? Kemur það þá til baka sem grenjandi ljón eða er sjálfstraustið laskað og það því auðveldari bráð? Um þetta má ræða endalaust.
Vormót og æfingaleikir eru þó helsta viðfangsefni sjálfskipuðu sálfræðinganna. Er gott að rúlla upp æfingamótum? Sigurtilfinning er jú eitthvað sem kemst upp í vana! Sjálfstraust er besti vinur fótboltamannsins! – En á hinn bóginn er ofmat á eigin styrk ekki gott! Betra er að taka út skellina og rekast á veggi í mótum sem engu skipta áður en út í alvöruna er komið! Blablabla…
2012 var ár vorleikjanna hjá Fram. 2011 virtist liðið dauðadæmt um mitt mót en fékk sextán stig í sjö síðustu leikjunum (og var óheppið að tapa fyrir KR og gera bara jafntefli við FH í þeirri hrinu). Þrátt fyrir að enda bara í níunda sæti var Fram heitasta liðið í mótslok. Það var að talsverðu leyti að þakka nokkrum breskum leikmönnum sem flestir höfðu komið á miðju tímabili. Bestur var Skotinn Steven Lennon sem skoraði fimm mörk í tólf leikjum. Hann var tæknilega flinkasti leikmaður deildarinnar, en afskaplega lágur í loftinu sem skýrði líklega hvers vegna honum hafði ekki tekist að fóta sig í heimalandinu.
Fram samdi aftur við alla Bretana fyrir tímabilið 2012. Því til viðbótar var ákveðið að halda þeim hér allan veturinn í stað þess að koma á miðju vormisseri. Þessi ráðstöfun var augljóslega kostnaðarsamari fyrir félagið, en gaf þjálfaranum kost á að vinna lengur með sitt besta lið til að stilla saman strengi.
Strax í ársbyrjun var ljóst hvernig besta lið Fram yrði skipað. Á sama tíma var mörgum spurningum ósvarað varðandi hin félögin. Fjöldi leikmanna var að reyna að komast á mála erlendis. Hverjum myndi takast það og hverjir sneru aftur til sinna liða átti eftir að koma í ljós. Mörg lið myndu styrkja sig með útlendingum, en hverjir þeir yrðu eða hvað þeir gætu væri óljóst fram að páskum.
Á meðan skildu Framarar alla aðra eftir í rykinu. Forriðillinn í Reykjavíkurmótinu vannst auðveldlega. KR reyndist lítil fyrirstaða, þótt lokatölur yrðu bara 2:1. Bæði liðin komust áfram og mættust á ný í úrslitaleiknum um miðjan febrúar. Fram var með sinn sterkasta mannskap, en KR-hópurinn var gloppóttari. Þannig voru Egill Jónsson, Dofri Snorrason og Hróar Sigurðsson allir í byrjunarliðinu, menn sem áttu takmarkað eftir að koma við sögu þetta sumarið.
En KR-ingarnir voru ekki bara þunnskipaðir. Þeir voru líka þungir og svifaseinir. Framararnir voru á hinn bóginn í fínu formi og enginn í meira stuði en Steven Lennon.
Hann hafði KR-ingana að fíflum trekk í trekk. Skúli Jón og Gunnar Þór í KR-vörninni litu út eins og viðvaningar þegar Lennon stakk sér fram hjá þeim að vild. Eftir fimm mínútur var staðan orðin 2:0 og Lennon í raun klaufi að vera ekki kominn með þrennu. KR-ingarnir reyndu að halda uppi einhverju miðjuspili, en í hvert sinn sem færi gafst tóku Almarr, Kristinn Ingi eða Lennon á rás, oftar en ekki eftir snilldarstungur frá Samuel Hewson. Eftir hálftíma voru varnarmenn KR orðnir taugahrúgur og hrósuðu happi í leikhléi að staðan væri bara 3:0. Lennon var með öll mörkin.
Eftir hlé drógu Framarar nokkuð úr sóknarþunganum og Vesturbæingar einbeittu sér að því að bjarga andlitinu. Lennon bætti við fjórða markinu snemma í seinni hálfleik og upp frá því var þetta bara spurning um að reyna að slá met. Ungir strákar af bekknum tíndust inná einn af öðrum og leikurinn varð dauflegri. Hannes Þór var góður í KR-markinu og varði nokkrum sinnum vel. Framararnir fengu víti, sem Lennon var vitastkuld látinn taka, 5:0. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var honum skipt útaf – til að fá dynjandi lófatak. Framararnir á áhorfendapöllunum voru samt pínkulítið spældir. Sjötta markið hefði alveg getað verið í kortunum.
Það hefur ekki verið gaman að vera KR-ingur á vinnustað með Frömurum (eða stuðningsmönnum nokurra annarra liða, ef út í það er farið) næstu daga á eftir. En þetta reyndist Pyrrhosarsigur fyrir Safamýrarliðið. Steven Lennon fékk þann stimpil að vera besti framherji sem til Íslands hefði slæðst og allir andstæðingar mættu til leiks með það að markmiði að stöðva hann með góðu eða illu – helst illu. Hann var sparkaður sundur og saman af varnarmönnum flestra liða, sem sjaldnast uppskáru nema tiltal. Hann hóf Íslandsmótið meiddur og lauk því fótbrotinn eftir þrettán leiki, þökk sé tónlistarmanni úr Hafnarfirði.
Á þeim tíma hafði Lennon aldrei náð að leika á fullum dampi og skoraði ekki nema fimm mörk, jafnmörg og þessum eina Reykjavíkurmótsúrslitaleik. En mikið djöfull var það þó gaman meðan á því stóð!
(Mörk Fram: Steven Lennon 5)