Ó hvað það væri gaman að eiga tölvuspil núna. Það voru miklu skemmtilegri leikföng en hinir fúlu geim-bojar. Ég átti þó aldrei nema tvö tölvuspil. Annars vegar var klassískt mario bros-spil, sem var tvískipt (opnaðist eins og bók) og gekk út á að færa kassa með flöskum milli færibanda. Svakalega var ég orðinn flinkur í því spili!
Hins vegar átti ég fótboltaspil sem keypt var í útlandinu. Það hafði aðeins einn myndaglugga, en hins vegar gat sá gluggi sýnt tvær myndir – sitthvorn vallarhelminginn eftir því hvort maður var í sókn eða vörn.
Bjössi frændi átti tveggja hæða Donkey Kong spilið sem gekk út á að stökkva yfir olíutunnur sem einhver górilla henti í gríð og erg. Það er eins og mig minni að hann hafi líka átt þriggja hæða spil sem snerist um að úða eitri á köngulær. Kannski eru það þó bara misminni.
Stefán Jónsson átti Donkey Kong Jr. – þar sveiflaði apaköttur sér milli greina til að skjóta sér undan dýrabogum. Lokamarkmiðið var að frelsa górilluapa.
Steinunn segist hafa átt Stjána bláa-tölvuspil, líklega á tveimur hæðum.
Best að gramsa í gamla dótinu mínu við tækifæri. Kannski finn ég annað hvort tölvuspilið þar.