Jæja, Kaninkuklanið er aftur komið á netið og þar með talin þessi síða. Palli hefur staðið í stappi við bandarísku hýsingarþjónustuna sem taldi að við værum orðin alltof plássfrek, en færði okkur svo á nýjan hýsil og þetta ætti því að fá að standa uppi óáreitt í bili.
Þetta leiddi til þess að keppnislið gærdagsins í GB, sem ætluðu að fá aukavísbendingar á lokasprettinum, komu að tómum kofanum. (Þótt ekki hafi það nú verið líklegt að ég myndi planta svörum við spurningunum úr keppninni hér…)
Veit ekki hvað ég á að ganga langt í að leggja mat á hvernig til tókst með keppnina. Hraðbraut vann Garðabæ, 14:12, í viðureign sem var lífleg og spennandi þótt stigaskorið væri lágt.
Það er ómögulegt að sjá það nákvæmlega fyrir hvaða spurningar reynast léttar og hverjar þungar. Þannig stóðu liðin í gær á gati þegar ég spurði um sæbjúgu, þá kostulegu dýrategund. Heima í stofu gátu hins vegar Steinunn og Bryndís svarið strax í fyrstu vísbendingu. Kannski þetta sýni fram á gjánna milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar. Borgarbörnin hafi aldrei heyrt sæbjúgu nefnd, en fólkið úr sjávarplássunum sé með allt á hreinu.
Mér finnst nýja sviðsmyndin flott. Tæknin lék okkur hins vegar grátt í gær, þar sem við Steinunn Vala heyrðum varla nokkurn skapaðan hlut. Þar sem ekki hafði verið tími til æfinga, uppgötvuðum við þetta ekki fyrr en um leið og upptakan hófst. Við vorum gjörsamlega á nálum með sperrt eyrum að reyna að greina nákvæmlega svörin við hraðaspurningunum – sem er ekki létt verk þegar keppendur eru óskýrmæltir.
Hugsanlega hafa einhverjir áhorfendur komist að þeirri niðurstöðu að stig Hraðbrautarmanna hafi verið vantalin. Á spurningu um þjóðerni Hercule Poirot, svöruðu tveir af þremur að spæjarinn klóki hafi verið Belgi eða belgískur. Sigurður Pálmi í miðjunni svaraði hins vegar pólskur og þar sem honum liggur hæst rómur, var það svarið sem við heyrðum. Fyrir þetta fengu þeir ekki stig og ekkert hægt yfir því að kvarta.
Hvað hitt vafaatriðið varðar, verð ég hins vegar að játa á mig mistök. Spurt var hvers konar farartæki Ferdinand von Zeppelin hafi framleitt. Þar vildi ég fá svarið „loftskip“. Bæði liðin svöruðu hins vegar „loftfar“, sem er hæpið svar því þótt sumir kalli loftskip þessu nafni, þá merkir loftfar í raun ekki annað en hvaða fljúgandi farartæki sem er. Þarna fékk Garðabær hins vegar stig en Hraðbraut ekki. – Slíkt ósamræmi hefði ekki átt sér stað ef hljóðið hefði verið í lagi.
Fyrir næstu keppni verður búið að kippa þessu í lag. Við Steinunn Vala munum ef allt annað þrýtur fá litla hátalara í eyrun, í það minnsta meðan á hraðaspurningum stendur. Má líka búast við að hraðinn verði öllu meiri þar sem mætast MH og MR.