Jæja, þá er GB keppnistímabilið á enda. Held að fáir hafi fyrirfram átt von á því að keppnin myndi þróast með þessum hætti. Fjögur lið voru öll nægilega sterk til að vinna: Verslunarskólinn, Borgarholt, MR og MH. Þetta segi ég með fyllstu virðingu fyrir öðrum keppnisliðum. – Það er mjög óvenjulegt að svo margir sigurvegarar komi til greina. Yfirleitt eru það ekki nema 1-2 lið og örsjaldan þrjú.
Verslunarskólinn reyndist hlutskarpastur í ár. Því hefði ég aldrei trúað eftir keppni þeirra gegn Iðnskólanum í fyrstu umferð. Frábær frammistaða þeirra gegn MH í annarri útvarpskeppninni, þar sem þeir unnu afar sannfærandi sigur, kom þeim á kortið. Drátturinn í fjórðungsúrslit og undanúrslit var Verslingum hagstæður og þar unnu þeir án þess að sýna neina snilldartakta. Svo toppuðu þeir á réttum tíma. Voru einfaldlega grimmari þegar leið á úrslitaleikinn.
Ég fékk snemma á tilfinninguna að spurningarnar mínar hentuðu Verslingum vel. Þeir eru vel að sér í menningu, einkum Steinar. Verslingar kunna sína listasögu vel og það var enginn hörgull á slíkum spurningum. Við það bættist að Verslingar voru einfaldlega gisknasta liðið í keppninni og mínar hugmyndir um spurningakeppni ganga einmitt út á að verðlauna eigi menn fyrir þá færni.
Það voru þung spor Borghyltinga eftir keppnina. Þeir voru gríðarlega áhugasamt lið og mættu held ég á hverja einustu keppni í ár, jafnt í útvarpi sem sjónvarpi. Baldvin og Steinþór voru á heimavelli í spurningunum mínum, en þær hentuðu Begga ekki eins vel. Mér skilst að hann sé mikill fornaldaráhugamaður, þekki goðafræði upp á sína tíu fingur og fornsögur. Þessum sviðum gaf ég hins vegar að mestu frí í ár. Íslendingasögur, Sturlunga og grísk goðafræði voru í algjöru lágmarki þetta árið. Það var meðvituð ákvörðun – hvað seinna verður er hins vegar ómögulegt að segja.
Ég er ekki fjarri því að MR-ingarnir hafi lent í sömu stöðu. ín þess að hafa skoðað það vísindalega þá hef ég á tilfinningunni að Snæbjörn og Atli hafi ekki náð sér jafnvel á strik í minni dómaratíð og þeir gerðu með Svenna og Eggert Þór. Hins vegar finnst mér Oddur hafa notið góðs af mér í ár.
Á það heila tekið held ég að spurningarnar mínar hafi hentað MH-liðinu vel, en það kannski ekki endilega endurspeglast í þessum tveimur keppnum sem þau töpuðu – gegn MR og Versló. Andri, miðjumaður MH-inga var líklega besti raunvísindamaðurinn í ár (ásamt kannski Sævari í Flensborg). María og Jónas eru bæði mjög góð í sögu, einkum Íslandssögu. Akkilesarhæll þeirra var hins vegar dægurmenningin. íþróttir, popptónlist og bíómyndir var þeirra veika hlið og í keppnunum gegn MR og Versló var áherslan líklega heldur meiri á þessa þætti. Ef þungu raunvísindaspurningarnar mínar hefðu dottið inn í MR-MH keppnina er aldrei að vita hvað hefði gerst.
Til að losna við að pælingar eins og þessar hér að ofan hefðu áhrif á mig við samningu keppninnar, reyndi ég að halda mig við áætlun sem ég hafði samið áður en búið var að draga lið niður á einstaka þætti.
Fögnuðurinn hjá Versló var svo sannarlega ómengaður. Borghyltingarnir voru að sama skapi alveg í rusli – strákgreyin. Sárastir og reiðastir urðu hins vegar MR-ingar. Oddur hafði að orði að hann ætlaði niðrí Versló með naglaspýtu að lumbra á einhverjum. Hef þó ekki séð neinar fregnir sem benda til að hann hafi látið verða að því að ganga berserksgang. MR-ingar voru búnir að sætta sig við að láta Hljóðnemann af hendi til Borghyltinga en ekki til Verslinga. Það kæmi mér heldur ekki á óvart þótt bæði MR og MH-liðið hafi getað reiknað sig upp í sigur í þessari keppni.
En svona fór þetta nú allt saman. Óska sigurvegurunum hjartanlega til hamingju.
Best að nota tækifærið til að þakka:
* Sverri Jakobssyni, Óla Jó og Svenna Guðmars fyrir ómetanlega hjálp við yfirlestur, auk þess sem þeir lögðu til nokkrar spurningar.
* Palla Hilmars fyrir hjálp við öflun mynda og hljóðdæma, sem og fyrir aðstoð við að semja tóndæmaspurningar fyrir útvarpið.
* Kolbeini Proppé fyrir hjálp við spurningasamningu fyrir sjónvarp.
* Mömmu fyrir að leggja til nokkrar spurningar. Steinunni sömuleiðis, sem og fyrir að taka að sér hlutverk tilraunadýrs. Ekki veit ég hvað ég er búinn að prófa margar spurningar á henni.
Þar með ættu þeir lesendur þessarar bloggsíðu sem ekki nenna að lesa færslur um Gettu betur að geta varpað öndinni léttar. Abbú…