Ef ég væri átta ára og hefði horft á leikinn í gær, þá myndi ég sko vilja vera markvörður. Jújú, það er svalt að verja víti í vítakeppni og fara langleiðina með að tryggja sínu liði sigurinn. Það er ofursvalt að taka sjálfur úrslitavítið. En það langsvalasta var að hann skyldi hafa farið úr hönskunum áður en Vassel tók vítið og slegið það í burtu berhentur.
Ó hvað það er gott að vera laus við Englendinga úr keppni. Þá getur maður loksins aftur farið að lesa bresku blöðin og skoska þjóðin getur hætt að látast eins og henni finnist EM leiðinlegt.
Grikkirnir – mínir menn í ár – spila í kvöld við Frakka, liðið sem ég hef haldið með í öllum stórmótum frá 1996 þar til núna. Einhverra hluta vegna leggst leikurinn alls ekki illa í mig. Held að Frakkarnir fari í einhverja vitleysu eins og á móti Tékkunum 1996. Yrði ekki hissa þótt Grikkland ynni 1:0. (Já – óskhyggjan er líklega alveg að fara með mig.)
* * *
Bílhúsið er langt komið með Bláa drauminn. Bifvélavirkinn sagði mér að vera alveg rólegur yfir sætinu. Hann fær alltaf öðru hvoru Volvo-sæti og setur sig þá í samband við mig.
Og talandi um Volvo. Hvað var Umferðarráð eiginlega að hugsa um daginn þegar það grýtti bíl úr 25 metra hæð niður á jörðina til að sýna eyðileggingarmátt árekstra? Ekkert að því að slengja einum bíl í malbikið, en þá var ekki sterkur leikur að velja Volvo og láta hann lenda á hjólunum. Það sásta varla á bílnum. Dæhatsjú Tsjareid sem hefði verið látinn lenda á trýninu hefði breyst í ommelettu.
* * *
Eins og Palla, dreymdi mig líka Möggu Thatcher í nótt. Furðulegt.