Jújú, það voru kaffi og kökur í Borgarskjalasafninu. Ekkert bús á fimmtudagseftirmiðdegi. Nýja heimasíða safnsins virðist hins vegar notadrjúg. Það er ekki amalegt að geta rennt í gegnum efnislýsingu á flestum skjalasöfnunum heiman frá sér og þurfa ekki að flengjast niður eftir í hvert sinn – þótt vissulega sé alltaf vinalegt að heimsækja Jóhönnu og félaga.
Við þetta tækifæri voru Samtökin 78 að afhenda skjalasafnið sitt til varðveislu. Á sýningarskápunum í móttökunni er nú bráðskemmtileg sýning á bréfaskiptum samtakanna og ýmissa aðila. Til dæmis fær Tímablaðamaðurinn Þór Jónsson rækilega á baukinn fyrir hommahatursfullt viðtal frá 1986 sem bar yfirskriftina „Mér var nauðgað af homma“ – þar sem viðmælandinn óskar þess helst að allir hommar skundi aftur inn í skápinn, enda ólíft á skemmtistöðum fyrir kynvísa þegar ekki væri þverfótað fyrir öfuguggum.
Deilur við auglýsingadeild RÚV eru líka kostulegar. Þar mátti ekki nota orðin „hommi“ eða „lespa“ (svo!) í auglýsingatextum, til að misbjóða ekki hlustendum.
* * *
Frá Borgarskjalasafninu lá leiðin í róttæklingamiðstöðina í Garðarstrætinu. Var hálft í hvoru að vonast til að fá þar kaffi, en þessir róttæklingar eru svo liðónýtir að þeir drekka bara te og klúðra eilíflega kaffiuppáhellingum. Skilja mennirnir ekki að eldsneyti byltingarinnar verður svart kaffi?
Á miðstöðinni var góður gestur. Hrafnkelli Brynjarsson, betur þekktur sem Melli – einnig nefndur „landsins efnilegasti sonur“. Eins og búast mátti við, er Mellinn bara í stuttu stoppi á klakanum. Hann er aftur á leið til meginlandsins innan tíðar þar sem hann mun halda áfram baráttunni gegn auðvaldsskipulaginu og borgaralegu gildismati.
Melli er flottasti róttæklingur landsins. Hann er Róska sinnar kynslóðar. Spái því að æviminningar hans verði metsölubók – að því þó tilskyldu að hann muni eitthvað eftir ævintýrunum þegar þar að kemur.
Kaflinn um átök anarkistahommanna og nýnasistanna í Haag mun einn og sér tryggja góðu sölu. Held að kvikmyndarétturinn færi líka fyrir góðan pening…
* * *
Á kvöld blása besti bloggarinn og kona hans til kvöldverðarboðs. Tengdamamma og -amma, mágur og mágkona mæta – ef ég skil rétt. Hefnist okkur þá fyrir að vera enn ekki búin að kaupa norðstofuborð. Litla garðborð skjalavarðarins og pínulitla stofuborðið verða að duga. Hvers vegna erum við alltaf svona framtakslaus?
* * *
Á ég að láta eina fótboltapælingu fljóta með hérna í lokin – svona rétt til að svekkja fótboltahatara í hópi lesenda þessarar síðu? – Njah, mér dettur svo sem ekkert í hug í svipinn.