Kastljós gærkvöldsins var með skúnkalegra móti. Bogi frá Sjónvarpinu og Brynhildur frá Stöð tvö ræddu myndbirtingar af fórnarlömbum gíslatökumanna. Upplegg þáttarins var: erum við að hjálpa hryðjuverkamönnum með því að birta myndir og fréttir af aðgerðum þeirra.
Ef undan er skilin ein setning sem Brynhildur skaut inn í algjöru framhjáhlaupi, var ekkert sem benti til þess að fréttamennirnir tveir sæju málið í neinu stærra samhengi. Allt val á frétta- og myndefni er í eðli sínu pólitískt og er til þess fallið að hafa áhrif.
Á hverju kvöldi birtist í það minnsta ein frétt í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna af mannfalli í írak. Meira en 90% af myndum sem sýndar eru með þessum fréttum, eru frá sprengingum eða öðrum árásum sem andstæðingar hernámsliðsins og stjórnarinnar í Bagdad framkvæma. Örlítið brot af myndefninu sýnir hvernig umhorfs er eftir árásir Bandaríkjahers eða hersveita stjórnvalda í írak.
Engu að síður er það viðurkennd staðreynd að 2/3 af öllum þeim sem falla í írak um þessar mundir eru felldir af Bandaríkjaher og bandamönnum þeirra. 1/3 eru fórnarlömb „uppreisnarmanna“ eða hvað það er nú kallað núna.
Með þessu er ekki verið að bera blak af þeim mönnum sem sprengja upp hermenn og almenna borgara í borgum íraks – að sjálfsögðu ekki. Sú staðreynd að þessi þriðjungur mannfallsins fær alla umfjöllunina og allar fréttamyndirnar gerir það þó enn fáránlegra þegar íslenskir sjónvarpsfréttamenn sitja og diskútera það fréttaflutningur þeirra sé að spila allt upp í hendurnar á terroristunum?
Uss, þetta blogg er orðið alltof alvarlegt. Miklu betra að blogga bara um fótbolta.
* * *
Ekkifrétt gærdagsins var um „skólann“ hans Haraldar veðurfræðings. Þáttarstjórnendurnir í Íslandi í dag vonuðust til að fá hanaslag milli Eiríks Jónssonar og hans. Það mistókst hrapalega, enda ljóst að hvorki Eiríkur né Haraldur litu á þessa stærðfræði- og ljóðakennslu hans sem eiginlegan skóla sem komið gæti í stað venjulegs skólastarfs. Alltaf skemmtilegt þegar þáttastjórnendur eru sviknir um hasarinn sinn!