Ætti ég að hafa áhyggjur af því hversu illa ég er að mér í peningamálum? Á dag sendi íbúðalánasjóður mér bréf. Vilja losna við einhverja peninga sem legið hafa hjá þeim síðan í mars. Þetta er 35 þúsund kall sem ég hef ekki hugmynd um hvernig er tilkominn. Hélt að ég hefði tekið út allan húsbréfagróðann á sínum tíma.
Hvað gerir fólk sem skyndilega eignast nokkra aukaþúsundakalla? Ætli efst á listanum sé ekki finna skikkanlegar hillur í stofuna. Með því móti væri hægt að fækka aðeins bókunum í gesta-/bókaherberginu. Þar er sem stendur ólíft fyrir drasli, eins og glögglega kom í ljós um daginn þegar bandarískur gestur okkar var nánast kafnaður úr ryki.
Langtímamarkmiðið er svo að skipta herberginu upp í tvennt, annars vegar lítið svefnherbergi en hins vegar gluggalausan bóka- og vinnukrók.
Jamm, maður verður nú að gera sitt til að viðhalda þenslunni.