Aftur í gaggó!
Enn held ég áfram að rifja upp atburði þriðjudagskvöldsins:
íður en ég mætti á VG-fundinn langa og leiðinlega, þá þurfti ég að rumpa af einni spurningakeppni. Nú í vetur var ég ráðinn af íTR til að vera spyrill í síðustu sjö viðureignunum í spurningakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Það voru strákarnir úr sigurliði MR í Gettu betur frá síðasta ári sem höfðu frumkvæðið að keppninni, seldu íTR hugmyndina og mæltu með mér í spyrilsstarfið.
Fyrst eftir að ég tók verkefnið að mér, þá var ég á báðum áttum. Einhvern veginn hafði ég ekki mikla trú á að svona keppni gæti verið á mjög háu plani, enda hafa þessar grunnskólakeppnir hvorki verið fugl né fiskur til þessa. Annað átti svo sannarlega eftir að koma á daginn.
Sverrir, Svanur og Hjalti – umsjónarmenn keppninnar stóðu gríðarlega faglega að henni. Þeir voru með hljóðdæmi, myndir og jafnvel stutt myndskeið í spurningunum og uppbygging keppninnar var nákvæmlega sú sama og verið hefur í framhaldsskólakeppninni undanfarin ár.
Spurningarnar, a.m.k. frá og með fjórðungsúrslitunum, voru ekki ósvipaðar að þyngd og verið hefur í fyrstu umferðunum í Gettu betur. Ég leyfi mér að fullyrða að velflest grunnskólaliðin hefðu plumað sig bærilega í útvarpshluta þeirrar keppni.
Það var ekki ákveðið fyrr en á síðustu stundu að hafa úrslitaleikinn í beinni útsendingu á Rás 2. Ég var því með lífið í lúkunum, þar sem ég hafði aldrei áður komið að því að stýra útvarpsþætti. – Þrátt fyrir ýmsa smáhnökra er ég ekki fjarri því að bærilega hafi tekist til. Hagaskóli sigraði prýðisgott lið Seljaskóla á sannfærandi hátt, enda með sterkasta liðið í keppninni. Ég verð illa svikinn ef einhver þessara krakka munu ekki láta til sín taka í Gettu betur á næstu árum. – Sérstaklega var stelpan í Hagaskólaliðinu öflug. Hún myndi sóma sér í flestöllum framhaldsskólaliðum.
Nú var ég sjálfur í Hagaskóla sem gríslingur, sem var nægilegt til þess að aðstandendur a.m.k. eins tapliðsins fóru að dylgja um að Hagaskóla hafi verið hyglað í keppninni. – Slíkar hugmyndir eru náttúrlega með hreinum ólíkindum. Hver færi að svindla í spurningakeppni til að draga taum gamla gagnfræðaskólans síns?
Alveg er ég gjörsamlega laus við alla gaggó-rómatík! Ekki það að mér hafi þótt Hagaskólaárin neitt leiðinlegur tími, en kalt mat: 13-15 ára krakkar eru einfaldlega óþolandi. Það má hugsanlega telja sér trú um að börn séu sæt og skemmtileg, en unglingar eru það ekki!
Myndi ég taka að mér þessa spurningakeppni aftur? Tja, það er aldrei að vita. Þetta var bara ágætlega skemmtilegt og íTR borgar ágætlega…