Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2004

Myndataka

Við tókum loks af skarið og fórum með Strumpuna í myndatöku í dag. Notuðum tækifærið og smelltum myndum af hele familien, sundur og saman. Þetta fór allt saman vel fram og myndirnar sem við fengum að sjá á eftir lofa góðu. Við fáum disk eftir helgina til að velja úr og ef að líkum lætur verður voða erfitt að velja. Við fórum á Dagsljós, enda hef ég séð fínar myndir af ómyndanlegu fólki sem hann Finnbogi hefur tekið.

Annars var jógað í gær ósköp ljúft. Fyndið hvað maður gleymir ótrúlega litlu af sumu, eins og til dæmis þessum jógastöðum, á meðan maður man aðra hluti í svona hálfa mínútu.

Fórum svo að skipta Nýdönskueintökunum öllum. Eigum núna Season 3 og 4 af Allo allo og uppeldishandbókina „Hvað mikið er nóg“ – í þeirri von að Strumpan endi ekki algjör dekurdrottning:)

Ég er rómantísk…

…en ég er ekki alveg að kaupa rómantíkina í matseðli Hótels Holts. Hér er ég að vitna í bloggið hjá krúttlega gæjanum. Það er komin af stað merkileg umræða um tengsl matar, lystar og rómantíkur við heiti á réttum. Og mér finnst það svo ótrúlegur uppskafningsháttur að kalla rétti með einhverjum nöfnum sem venjulegur pöpull eins og ég get ómögulega skilið.

Annars bar það til tíðinda að ég fór í leikfimi í dag eftir rétt mánaðarhlé. Og það er skemmst frá því að segja að ég var við dauðans dyr í tímanum, lá við að ég væri farin að hósta blóði. Mikið ferlega er maður snöggur að detta úr formi. Ég ætla að fara í jóga á morgun til að byrja á byrjunarreit.

Jólaball

Þá er búið að fara með Strumpuna á fyrsta alvöru jólaballið. Það vakti heilmikla lukku. Eina sem ég sá eftir var að druslast ekki með myndavél en ég er bara afskaplega löt við það. Framan af var hún róleg og reyndar fyrst og fremst með hugann við smákökurnar sem hún sá, en svo smá hresstist hún. Við dönsuðum kringum jólatré og hún gerði ekkert fyrstu tvö lögin (jafnvel þó það væru megahittararnir Adam átti syni sjö og Í skóginum stóð kofi einn) en þegar hún fékk að leiða Evu og Kára fór hún að dansa af kappi. Hreyfingarnar voða krúttlegar, sérstaklega í Göngum við í kringum.

Svo kom jólasveinn, sá hinn sami og við erum alltaf að hitta, sáum hann í bænum fyrir jólin og þá var hún með svolítinn fyrirvara á hann, en hún var öll að koma til í gær. Hann gaf henni til að mynda nammi og var þá up close and personal en hún kippti sér ekkert upp við það. Dró reyndar mörkin við að kyssa hann takk.

Í gærkvöld byrjaði ég á jólabókinni í ár, Sakleysingjarnir sem voru útaf eina bókalistanum sem ég las (mér sýndist smekkur minn og Pezkarlsins frekar sundur en saman). Mér finnst hún fara vel af stað. Það sem ég kann sérlega vel við þegar ég les Ólaf Jóhann er að hann er laus við alla háfleygni. Mér leiðist alltaf að lesa það sem er á óeðlilegu tungumáli, eða það á að minnsta kosti misvel við. Ég sé fyrir mér að þessi bók hefði hitt ömmu í hjartastað, enda verið að lýsa staðarháttum fyrir austan í byrjun bókarinnar. Ólafur Jóhann var líka í sérlegu uppáhaldi hjá ömmu (má jafnvel leiða að því líkum að hann hafi örlítið komið í staðinn fyrir Davíð Stefánsson 🙂

Jólafréttir

Jamm þau eru hugguleg þessi jól. Allt eins og það á að vera, góður matur, góðar gjafir, góður félagsskapur. Það eina sem hefur sett örlítið strik í reikninginn er ófærð, en mikið var samt yndislegt að labba um bæinn allan á kafi. Það er langt síðan ég hef gert það.

Þema þessara jóla (eins og jólanna í fyrra) varð Nýdönsk. Að þessu sinni fékk ég þrjú eintök af Skynjun á dvd og einn á geisladisk. Ég er bara ánægð með það. Hef nú þegar augastað á dvd með ABBA en hugsa að Mummi fái að velja (með) einhvern í staðinn fyrir þann þriðja. Mummi tók þetta þema alla leið, það var hann sem bauð mér á sjálfa tónleikana og gaf mér þá svo á dvd og keypti geisladiskinn fyrir hönd dóttur okkar. Ég fékk margt fleira ljómandi fínt og er í det hele mjög ánægð.

Sóley er ljómandi ánægð líka. Hún var tiltölulega róleg á aðfangadagskvöld, opnaði samt eina fjóra pakka eða svo og við svo fyrir hennar hönd eitthvað. Hún var ákaflega sátt við allt sem hún fékk en þar bar samt hæst bók með hljómborði. Í gær fékk hún svo að opna tvo pakka (til að foreldrarnir gætu legið sem lengst í rúminu) og var gríðarlega sátt líka, en í dag átti hún eftir fjóra pakka og þá kviknaði aldeilis á perunni. Við fórum og sóttum fyrsta pakkann undir jólatréð (fína jólatréð, sem þarfnast eiginlega sér færslu) og opnuðum hann uppi í rúmi og síðan þusti hún alltaf fram eftir næsta pakka og tætti utan af honum, leit svo rétt aðeins á innihaldið áður en hún sótti nýjan. Svo hún er heldur betur farin að átta sig á út á hvað þetta gengur allt saman.

Annars er ég eiginlega ánægðust með jólakortin. Þau verða veigameiri með hverju ári. Í ár fékk ég í fyrsta lagi mörg kort með ógurlega fínum myndum, sem er auðvitað alltaf gaman. Að auki fékk ég nokkur sem voru sérlega skemmtileg aflestrar og þau gleðja mig alltaf allra mest. Ég reyni sjálf eftir fremsta megni að hafa kortin frá mér á persónulegum nótum (en auðvitað misjafnt hvað ég er í miklu stuði) en nokkrir sem senda mér í mesta lagi með nafninu sínu undir fá það right back at them – sannur jólaandi!

Letismeti

Jabb, ég hef verið óheyrilega löt að blogga og engar afsakanir duga. Fokkaði kvöldinu hressilega upp, ég ætlaði að sitja á jólatónleikum kirkjukórsins í þessum skrifuðu orðum en nei, ég beit vitlausa tímasetningu í mig og þegar ég fór að tékka á málinu voru þeir byrjaðir. Þannig að ég fór að skrifa jólakortalista í staðinn, ekki er ráð nema í tíma sé tekið, þó svo að skrifin sjálf bíði betri tíma. Ég er einhvern veginn ekki í gírnum og þó svo ég viti að hann kæmi líklega af sjálfu sér, þegar ég væri byrjuð og búin að setja fína tónlist á og það allt, þá ætla ég samt að fresta þessu enn um sinn, enda margir dagar í síðasta sendingardag. Svo er ég bara búin að vera eins og bjáni með netta timburmenn í dag, það fór eitthvað úrskeiðis á útskriftarmatnum í gær, ég varð full eins og bjáni og ég sver að ég drakk ekki neitt að ráði, úthaldið greinilega að bila.
Tíðindi dagsins eru samt þau að elskulegur mágur minn er farinn að blogga og nú plögga ég hann alveg geðveikt fyrir mína fáu lesendur. Þið verðið ekki svikin af því að lesa hann, því þetta er maðurinn sem er fyndinn þó hann ætli sér það ekki. Ég elska alla vega húmorinn hans, enda er hann nú að einhverju leyti ættgengur.

Brögðum beitt

Strumpan er farin að færa sig upp á skaftið og kann á mömmu gömlu. Þannig er, að hún er að verða býsna virk að fara á koppinn og láta vita í tíma. Í kvöld fór hún til dæmis langa og góða ferð á koppinn og var eðlilega stolt á eftir. Það þarf reyndar ekki að vera mikill afrakstur, það er fastur liður að segja kulle steppa – útleggist í þýðingu dugleg stelpa. Nema hvað, í kvöld hefur hún verið sérlega ósátt við að fara að sofa og ég leit á hana og þá tilkynnti hún að hún þyrfti nauðsynlega að kúka og pissa. Ég verð náttúrulega að standa mína pligt og fór með hana á koppinn. Daman kreisti fram fáeina dropa til að sýna fram á réttmæti kröfunnar en þetta lyktaði langar leiðir af undanbrögðum. Það er óþægilega mikið vit í kollinum.

Lokahóf

Þá er síðasti þátturinn af Krøniken búinn í bili og lokahóf í gær. Það hefði mátt vera við betri kringumstæður þar sem ég var enn og aftur með óvirka bragðlauka svo átveislan var til lítils. Bragðlaukarnir hafa verið að detta inn og út síðustu daga, og eru yfirleitt úti þegar mest liggur við.

Annars hefur helgin farið í alls slags jólastúss. Við fórum til dæmis að sjá jólasveinana á svölunum á laugardaginn. Fröken var heldur betur uppnumin. Ég gerði heiðarlega tilraun til að syngja og dansa með hana í fanginu og hún sneri höfðinu næstum af því hún var svo upptekin af því að horfa á jólasveinana. Í minningunni finnst mér eins og það hafi verið betri þátttaka í bænum hér í denn, ég sé fyrir mér óskaplegt mannhaf 🙂

Ég átti annars góða stund á fimmtudagskvöld, sat og horfði á Nýdönsk í boði tonlist.is. Sweet! Ég hef örugglega verið skemmtilegur selskapur, sat með heyrnartól og skellti upp úr. Fer ekki ofan af því að þeir gætu reynt fyrir sér í uppistandi, amk þeir Jón og Björn. Mér fannst þetta í raun ekkert síðra en sinfóníutónleikarnir, svona lágstemmdara.

Jóladiskurinn minn

Fékk allt í einu þessa snilldarhugmynd að bloggi, að deila hvaða 10 lög ég myndi setja á ómissandi jóladiskinn minn. Og snilldin og það erfiða í þessu er, að takmarka sig við 10. Hann er náttúrulega allt í senn frumlegur og klénn, hátíðlegur og kátur. So here goes;
1) Náin kynni (Vitavon) með Pálma Gunnars. Það frumlegasta sem ég set á listann. Ég man ekki einu sinni hvernig það hljómar í augnablikinu svo ég get lítið sett inn til hjálpar þeim sem ekki vita hvaða lag þetta er, en þetta var á plötunni 11 jólalög og rifjaðist upp fyrir mér hvað það er æðislegt þegar ég heyrði það í útvarpinu núna fyrir helgi.
2) Yfir fannhvíta jörð, með sama Pálma eða jafnvel í útgáfunni hans Undra-Stevie, hvort sem er, algjör eðall.
3) A spaceman came travelling með Palla og alls ekki með Chris DeBurgh, *hrollur*. Þetta er bara eitt af einhverjum þeirra fjölmörgu af disknum hans og Moniku, sem koma til greina.
4) Friður friður frelsarans með Rúnnsla Júl. Sömuleiðis eitt af nokkrum sem koma til greina af jólaplötuNNI, kertaplatan Gleðileg jól sem var til á öllum betri heimilum. Þetta lag er þarna upp á bernskuna. Í den hefði ég samt valið Jólasveinninn minn eða Snæfinnur snjókall 🙂
5) Happy new year með ABBA sem er auðvitað ekki „jóla“lag en er um sömu mundir lag. Æskuthing – fæ bara gæsahúð og tár.
6) Do they know it’s Christmas með Band-Aid. Algjörlega ómissandi, hver gæðasöngvarinn á fætur öðrum og að sama skapi nýja útgáfan vond!
7) Thank god it’s Christmas með Queen er aðallega með til heiðurs Óla bróður. Samt svo gott.
8) Og hér koma hátíðarlögin; Betlehemstjarnan – annað hvort með Palla eða Kristjáni óvinsæla (svona meiri kraftur í hans.)
9) Ó, helga nótt í flutningi Óskars Péturssonar ef ég mætti ráða (fastur liður í kirkjunni til margra ára), en þar sem það er ekki til á diski fæ ég bara Diddú í staðinn. Að minnsta kosti enga af nýmóðins útsetningunum, með einhverjum synt trommum í bakgrunni.
10) Og síðast en eiginlega fyrst, hjá mér eru engin jól án þessa lags, sem kallast fullu nafni Aðfangadagur jóla 1912 – en þekkist frekar sem Gleð þig særða sál og þetta í flutningi Söngsveitarinnar Fílharmóníu. Stelst alltaf í þetta áður en jólin koma. (Ég hefði jafnvel líka viljað hafa Slá þú hjartans hörpu strengi, sem er á sama disk, en það er nú ekki bara jólalag.
Og eins og gefur að skilja varð fleira undan að láta. Líklega varð mér sárast um Last Christmas, en það féll út vegna netts óverdóss 🙂

Alein heima…

…og vorkenni mér ægilega. Í þessum skrifuðu orðum gæti ég verið á jólahlaðborði að belgja mig út og hafa það gott, en nei, ég ákvað að sleppa því, þar sem bragðlaukarnir eru enn í verkfalli. Hver er gleðin þegar maður finnur ekkert bragð? Mér finnst ég aldrei eiga bágara en þegar þetta kemur fyrir.
Sorgin er meiri og margfaldari en þetta. Haldiði ekki að ég hafi farið og splæst mér í kjól í dag, í þeirri ólíklegu búð Rexín (meira að segja í annað skiptið á þessu ári sem ég versla þar). Fann einmitt kjól eins og mig langaði í, efnislítinn og fínan 🙂 Held satt best að segja að ég hafi ekki klætt mig í minna svona að ofanverðu að minnsta kosti áður (tel ég þá að sjálfsögðu ekki sundföt og nærföt). Ég er líka ljómandi lukkuleg hvað hann klæðir mig vel (eru ekki montpóstar skemmtilegri en sjálfsvorkunnarpóstar?) og hlakka mikið til að klæðast honum á opinberum vettvangi. En ég hugsa að ég finni eitthvað til að hafa utan yfir hann fyrir helstu fjölskylduboðin.
Í fáum orðum um veikindi, þá virðist Fr Sacher hafa haft rétt fyrir sér. Þetta er algjört sýklabæli, við höfum öll legið og keppst við hver er nú veikastur það skiptið. Hún telst góð ef hún sleppur eftir samvistirnar við okkur um helgina.
Btw þá var auðvitað alveg æðislegt að fá hana í heimsókn. Það var reyndar aðallega hún sem dekraði við okkur, það eina sem hún græddi á að vera hér var að sofa svolítið út (og vakna þá við yndisfagran barnasöng).