Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2005

Á persónulegum nótum

Það kom upp ágætur uppveltingur í gær. Það barst í tal hvort væri persónulegra að kyssast (og þá meina ég að sjálfsögðu að fara alla leið) eða að nudda saman nefjum. Ég er alfarið á þeirri skoðun að nefnudd sé miklu persónulegra (og þá er ég að meina í samhenginu hvað eru verstu svikin að gera með öðrum en maka) enda er það nánara og einhvern veginn svo sérstakt að maður gerir það ekki með hverjum sem er. Nefnudd er sem sagt númer tvö á listanum mínum yfir það versta sem þú getur gert – þarf auðvitað ekki að taka númer eitt fram, en kossaflens lendir í þriðja sæti (að minnsta kosti meðan ég man ekkert annað).

Sól og sumaryl

Ég hef verið ægilega lukkuleg með hækkandi hitastig og af því tilefni dregið fram pils við allar hugsanlegar dragtir (og til hvers að eiga þessi pils ef maður notar þau ekki). Viðbrögð vinnufélaganna eru mest hrós um hvað ég sé huggulega klædd en það er ekki að spyrja með karlmennina, þeir geta í mesta lagi sagt „hva, er komið vor hjá þér“ eða eins og einn sagði „ertu að fara að vinna í banka“. En jæja, ég er svo sem ekki að þessu fyrir þá.

Annars var ég hjá tannlækni í hádeginu að endurnýja gamlar fyllingar. Var eiginlega ófær um að tala í tímanum eftir hádegi, öll varahljóð alveg ónýt, p, b og m, þannig að ég talaði eins og fífl og skildist varla. Var búin að gleyma hvernig þetta er, rifjaðist heldur betur upp fyrir mér hvað var alltaf gert ógeðslega mikið grín að manni þegar maður kom deyfður heim (Anna þar fremst í flokki!)
En þetta var nú hálfgerð lýtaaðgerð, því nú hef ég hvíta fyllingu og þarf bara að brosa ögn breiðar svo það sjáist í efri góm 🙂

Barn á leiðinni 2006?

Mummi er að gæla við Kýpurferð í sumar, eftir að hafa unnið í ferðalóttóinu í RT. Það eina sem stoppar hann er hræðslan við það, sem að hans mati fylgir óhjákvæmilega með. Síðast þegar hann stakk mig af til sólarlanda, fékk hann þær fréttir fljótlega eftir heimkomu að ég væri ólétt.

Þegar hann lýsti þessum áhyggjum hélt ég að hann væri að meina að ég yrði ólétt í fjarveru hans og lofaði að það yrði ekki. (Sá fram á að verða ellegar sett í skírlífsbelti.)

Er einhver með góða hugmynd hvað ég get gert skemmtilegt á meðan (byrjun júlí)?

Bóndadagur, annar í Bónda og þriðji í Bónda

Sukkhelgi út í eitt. Byrjaði á að fá þær samstarfskonur mínar í kaffi og tertu á föstudag og eldaði svo dýrindismáltíð handa bóndanum. Dagurinn (eða kvöldið – þetta er nú eiginlega bara bóndakvöld) allur hinn besti.

Á öðrum í bónda fórum við í sveitina og átum pönnukökur eins og stöfluðust í maga, plús afgang af tertu – kvöldmaturinn var svo afgangur frá kvöldinu áður.

Á þriðja í bónda var Brúin með gulrót í eftirmat, afmæliskaffi hjá Jóni Óskari og pönnukökukaffi hjá Gylfa afa og Öddu ömmu. En ég borðaði að vísu ekkert eftir það. Mér finnst eins og það sjáist munur á manni eftir svona svall.

Sáum The Village á laugardagskvöld. M. Night bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Ég er mjög hrifin af þessari, og hafði sloppið algjörlega við að heyra nokkuð um surpræsið.

Brottflutta barnið

Það gengur vel að ala Strumpu frá sér. Hún fer orðið möglunarlaust að sofa – eiginlega mikil hátíð miðað við það sem var orðið, því hún átti það til að vera í fýlu í klukkutíma og rúmlega það þegar hún var sett inn að sofa. Núna liggur hún og kallar í mesta lagi svolítið fram, en fer ekki einu sinni á fætur, sem kemur eiginlega mest á óvart. Mummi vildi fara að losa rúmið hennar úr herberginu okkar – við vorum að fá okkur nýtt rúm, en ég er ekki tilbúin í það enn. Svo er fröken líka mjög stolt af þessum góða árangri – sagði í morgun við pabba sinn „kulle steppa sofa hebbebbi“.

Ég tók aldursprófið sem allir bloggarar eru að taka þessa dagana. Nema hvað, there’s no way rubbing it of – ég er víst 31 árs (og hefði varla komið á óvart þó það hefði staðið og fjögurra mánaða og 20 daga, fyrst þetta er svona nákvæmt).

Klippt á naflastrenginn

Stór dagur í gær. Það var ákveðið að láta Strumpuna prófa að sofa í sínu herbergi. Ekki uppi í prinsessurúminu, það er ekki óhætt enn, þess vegna settum við dýnuna úr rúminu hennar á gólfið, undir rúmið og gerðum ógurlegt hreiður þar. Hún var ekkert nema jákvæðnin fyrirfram, lítið mál að „sofa hebbebbi“, en svo vandaðist málið þegar alvaran varð ljós. Þá varð hún ósamvinnuþýðari og grenjaði úr sér lungun. En eftir tvær tilraunir þar sem henni var boðið að grenja í lokuðu herbergi eða að vera þæg í opnu herbergi, ákvað hún að fara málamiðlunarleiðina og var þæg, sofnaði meira að segja tiltölulega fljótt og svaf í alla nótt (með smá rumski um ellefu, en það var nóg að leggjast aðeins hjá henni). Svo var hún montin eftir því í morgun, en spurning hvort hún var að reyna að semja þegar hún kom inn í okkar herbergi, benti á rúmið sitt og sagði „sofa hetta“. Hún tilkynnti Ráðhildi líka um dugnaðinn þegar við mættum þangað í morgun og uppskar mikið lof fyrir. Sennilega hefur þetta verið álíka erfitt fyrir mig og hana – ég var að minnsta kosti alltaf að hlusta reglulega í nótt.

Annars er afmælisbarn dagsins hún Anna Lilja, hún er þrjátíuogeins, sem samkvæmt minni reynslu er mikið sársaukaminna en að verða þrítug. Til hamingju með daginn, Anna!

Kynæsandi kaup

Jæja, það mætti halda að annað hvort sé ég með kynlíf á heilanum (ok, ég játa að það gerist stundum) eða upptekin af því að stækka lesendahópinn með æsifréttafyrirsögnum! En að þessu sinni eru tengsl á milli titils og innihalds því þannig er að ég lét verða af því í dag að kaupa tvo geisladiska (eða þrjá, annar var svona tveiríeinu). Það var annars vegar kyntröllið Robbie Williams – best of (en svei mér ef maðurinn er ekki enn betri læv), og hins vegar Rearviewmirror með kynæsandi röddinni frá Eddie Vedder. ÚHhhh.

Fyrir óglögga Birtu-lesendur vek ég svo athygli á því að það er engu líkara en Erla í Dúkkulísunum lesi bloggið mitt eða að innlegg mitt um sexý bassa hafi vakið stórfelldar umræður í samfélaginu (sem hafa þá að vísu ekki skilað sér í VMA).

Eru karlmenn skemmtilegri en konur?

Ég fór allt í einu að spá í að ég, sem vinn á stórum og vel kynskiptum vinnustað, virðist bonda miklu meira við karlmenn heldur en konur. Ég íhugaði málið svolítið í gær og sama hvað ég reyndi, ég mundi ekki eftir neinni samkennslukonu sem ég hef náð verulega fínu bondi við, en mér datt strax nokkrir karlmenn í hug. Þá flaug mér í hug þessi fullyrðing sem einn samkennari minn, karlkyns, setti einu sinni fram. Hann vildi sem sagt meina að karlmenn væru almennt skemmtilegri en konur. Ég spilaði mig náttúrulega sármóðgaða og var það svo sem alveg aðeins, fyrir okkar hönd, en nú er það bara málið, hvort hann hafi rétt fyrir sér. Kannski er ég bara skemmtilegri í samskiptum við karlmenn og þetta er allt undir mér komið?

Ég hef svolítið samviskubit yfir þessu, því að þó svo að það séu engan djúpstæðar tilfinningar í bondinu, þá líður mér nett politically uncorrect. Þetta er eitthvað forboðið.

Sexý bassaleikarar…

Smá hugleiðing aftur um hversu sexý bassaleikarar eru. Ég hef íhugað þetta vandlega og dettur í fljótu bragði tvö dæmi um ósexý bassaleikara. Annars vegar Paul McCartney – og nú er ég voða góð og hugsa aftur til hans gullára, ég hefði nú frekar viljað Lennon, anytime, anywhere. Hins vegar er það John Deacon – vá hvað maðurinn er ósexý. Hitt er annað mál að enginn í Queen var sexý – talandi um að vera frægur út á tónlistarhæfileika frekar en útlit.

Vondur morgunn

Það þarf ekki mikið til að slá mig út af laginu svona fyrst á morgnana. Í morgun var það fatatengt. Þannig er að ég tók þann pól í hæðina að klæða mig huggulega þegar ég byrjaði að kenna hér í VMA. Það hefur gengið vonum framar og ég á orðið ágætlega álitlegt dragtarsafn. Ég geymi alla jakkana hér í skólanum, enda geng ég nánast ekki í þeim annars staðar. Nema hvað, ég ætlaði að vera í kamellituðu dragtinni í dag og kom í tilheyrandi neðriparti. Setti svo allt á annan endann til að finna jakkann en hann var algjörlega horfinn. Svo ég neyddist til að vera lufsuleg í flíspeysu. Ergði mig alveg stórfenglega, svo mikið, að ég fór heim og leitaði þar, án árangurs. Þannig að ég leitaði betur hér og fann hann loks, mér til mikils léttis. Svona geta krísur orðið til úr litlu.

Svipuð krísa átti sér stað í haust, þegar ég uppgötvaði mér til skelfingar einn morguninn að ég hafði gleymt að mála mig. Sem betur fer var ég ekki að kenna í fyrsta tíma og gat því brunað heim og bætt úr því. Núna var ég að koma mér upp survival kit til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Já það er erfitt líf að vera hégómagjarn.