Jahá, þá ætla Indverjar að setja á markað sína fyrstu single malt-viský tegund.
Framleiðendurnir halda því fram að Bangalore-viskýið bragðist eins og Spayside. Ekki veit ég hvort maður á að trúa því. Markhópurinn virðist vera indverskir veitingastaðir á Bretlandi. Það er svo sem ekki galið. Sjálfur lét ég blekkjast til að prufa Thai-viský á Ban-thai á dögunum. Það var blend-hroði, sem gerði þó sitt gagn við að ýfa upp bragðlaukana áður en ég skellti mér í sterkasta curry-rétt hússins. Stór mistök…
Á fréttinni í The Scotsman er getið um önnur viskýframleiðslulönd. Sá listi kepmur nú nokkuð spánskt fyrir sjónir. Kanadabúar eru taldir helstu samkeppnisaðilar Skota í viskýinu, en ekki Japanir. Mig langar í japanskt viský, en er ekki vitund spenntur fyrir kanadísku glundri.
Sjá má að um alla Evrópu eru menn nú að setja upp brugghús. Strákurinn á Suðurlandinu sem þykist ætla að framleiða íslenskt viský verður þá kannski ekki svo einstakur eftir allt saman. Skringilegt þótti mér þó að sjá Wales talið upp sem nýgræðinga í viskýinu. Man ekki betur en að pabbi hafi keypt flösku af slíku viskýi um árið. Það var nú þunnur þrettándi.
Fyrir áhugamenn um viský er þessi frétt raunar líka áhugaverð. Þar kemur fram að Glenlivet stefni að því að skjótast fram úr Glenfiddich og verða söluhæsta single malt í heimi. Veit ekki alveg hvað manni á að finnast um það…