Einhverju sinni heyrði ég auglýsinga- og kynningarmálagúrúið Gunnar Stein Pálsson lýsa því hversu erfitt það hafi verið að koma til fundar með forsvarsmönnum Mjólkursamsölunnar og kynna þeim tillögu sína að nýju slagorði. – „Mjólk er góð! – við borguðum þér milljónir og þetta er slagorðið sem þú kemur með! Þrjú orð, er það allt og sumt?“
Mórallinn í sögu Gunnars Steins var sá að snilldin gæti legið í einfaldleikanum. Nöfnin þyrftu ekki að vera fansí. Gott og vel – ég skal kaupa þessi rök. Samt er ég ekki alveg að ná snilldinni í nýju nafngiftunum í höfuðstöðvum Orkuveitunnar.
Á dögunum var efnt til nafnasamkeppni í fyrirtækinu. Þar lá fyrir að velja nöfn á báðar álmur aðalbyggingarinnar: vesturálmuna (sem lítur út eins og farartæki litlu kvikindanna í munkakuflunum í Star Wars); austurálmuna; sýningarsal; ráðstefnusal & véla- og vinnuflokkahús sem stendur norðan við höfuðstöðvarnar.
Nú er niðurstaðan fengin. Sýningarsalurinn fékk nafnið „100°“, sem er reyndar sama heiti og skipuleggjandi samkeppninnar hafði stungið upp á „til að gefa tóninn um hvaða nöfnum verið væri að fiska eftir“. En hin nöfnin – eru þau jafn hipp og kúl?
Tja, fyrirlestrarsalurinn fékk nafnið „Fyrirlestrarsalur OR“. Vesturálman fékk heitið „Vesturhús“; austurálman heitir nú „Austurhús“ og vélahúsið nefnist „Norðurhús“.
Öhh…
Með fyllstu virðingu fyrir hugmyndaríkum vinnufélögum mínum (sem skíra eflaust börnin sín Dreng og Stúlku), þá held ég að það hefði ekki verið úr vegi að blæða í auglýsingastofu varðandi þessar nafngiftir.
* * *
Luton vann Bristol City um helgina. Of seint – alltof seint. Tímabilið má heita búið og við missum nokkuð örugglega af sæti í umspili. Sigurinn á Bristol bætir hins vegar stöðu QPR. Það ætti að gleðja Stebba Hagalín.
* * *
Góður sigur á Þrótti í gær. Þá þurfum við bara að taka Valsara í lokaleiknum til að komast í fjórðungsúrslitin. Lékum með þriggja manna vörn í fyrsta sinn. Hef trú á að það geti komið vel út. – Færeyingarnir skoruðu báðir. Dómarinn dæmdi á okkur ruglvíti en hafði af okkur tvö frekar en eitt. Þegar við svo loksins fengum vítaspyrnu var hún varin.
Úr því að ígúst Gylfason er ekki lengur til að taka vítin myndi ég veðja á Þorvald Makan.
Jamm.