Lestur norsku kvöldsögunnar um ævintýri múmínpabba gengur vel.
Bókin, sem illu heilli hefur ekki komið út á íslensku, byggist að mestu upp á endurminningum múmínpabba, en eins og lesendur bókaflokksins þekkja er æði oft vísað til ritunar þeirra í hinum bókunum. Loksins virðist losna um ritstífluna og múmínpabbi er sannfærður um að bókin muni gera hann að milljónamæringi.
Sú mynd sem flestir Íslendingar hafa af múmínálfabókunum er villandi, þar sem lengi vel höfðu einungis fimm af bókunum átta komið út (nokkrar mynda- og teiknimyndabækur til viðbótar tilheyra þó sögunni). Þær sem upp á vantaði voru Minningar múmínpabba, Seint í nóvember og Ósýnilega barnið – sem raunar kom út fyrir nokkrum árum á íslensku en vakti ekki mikla athygli.
Seint í nóvember og Ósýnilega barnið eiga það sameiginlegt að fjalla nánast ekkert um múmínfjölskylduna. Þær beina athyglinni að öðrum persónum, s.s. Fílifjonkum og Hemúlum.
Af þessum fimm bókum sem fyrstar komu út hérlendis, eru allar með múmínsnáðann í aðalhlutverki – þótt segja megi að múmínpabbi sé hin eiginlega aðalpersóna í Eyjunni hans múmínpabba. Það er raunar svalasta bókin í seríunni. Vitavörðurinn og Hattífattarnir rokka!
Á Minningum múmínpabba er kastljósinu beint að honum og aðrar persónur eru í algjörum aukahlutverkum. Munaðarleysinginn múmínpabbi fer út í heiminn og eignast tvo vini – sem raunar reynast vera feður Snúðs og Snabba, sem síðar verða vinir múmínsnáðans.
Múmínpabbi er dramblátur og kemst upp með það. Tove Jansson prédikar aldrei yfir lesendum sínum. Persónur í bókum hennar eru margar hverjar nískar, eigingjarnar, frekar, tillitslausar og svo mætti lengi telja – engin krafa kemur hins vegar fram um makleg málagjöld. Þeim hegnist ekki fyrir bresti sína, þvert á móti í sumum tilvikum.
Og ekkert er verra en vandlætingar og siðapostular. Fílifjonkan/hemúllinn sem skammar Snúð fyrir að reykja og drekka kaffi fær á baukinn – og múmínmamma útskýrir fyrir Snabba að það sé allt í lagi þótt múmínpabbi reyki vindla og blæs á áróður reykingarandstæðinga.
Myndi einhver barnabókahöfundur gera þetta í dag?