Vei! Luton vann fyrsta leik tímabilsins, 2:1 eftir að hafa lent undir eftir tíu mínútur. Howard og Foley með mörkin. Það er alltaf gaman að vinna fyrsta leik. (Þótt hugrenningartengslin við fyrstu umferðina hjá FRAM í vor séu óneitanlega fyrir hendi.)
Þessi sigur dugir okkur þó ekki í fyrsta sætið. Þar er Colchester, eftir 0:3 sigur á Sheffield Wednesday. Votta íslenskum aðdáendum þeirra samúð. Það er eitthvað mikið að hjá Sheffield.
Næsti leikur er á miðvikudagskvöldið gegn Swindon á County Ground.
Ekki mun það draga úr kátínu Luton-manna að Watford tapaði fyrir Preston. Spái Watford falli í ár.
Hearts byrjar tímabilið sömuleiðis vel. Útisigur gegn Dundee, 0:1 með vítaspyrnumarki hjá Pressley fyrirliða. Það er einn harður nagli. Ef Hearts fer þokkalega af stað spái ég því að þjálfarinn verði keyptur upp á miðju tímabili þegar hausarnir byrja að fjúka fyrir sunnan landamærin.
* * *
Og úr því að maður er dottinn í fótboltabloggsgírinn (gerist alltaf á þessum árstíma) þá er ekki úr vegi að líta á stöðu mála í þriðju deildinni á klakanum.
Þar var ísafjörður að henda frá sér sæti í úrslitakeppninni. Aumingja Vestfirðingar! Hvenær ætlar ísafirði eiginlega að takast að mjaka sér aftur upp deildarkeppnina? Reynir Sandgerði og Skallagrímur virðast bera af á Suður- og Vesturlandi.
Fyrir austan er hins vegar dramtík! Egilsstaðir og Hornafjörður eru búin að vera, en þrjú lið berjast um sætin tvö: Fjarðabyggð, Einherji frá Vopnafirði og Huginn Seyðisfirði. Það eitt og sér eru óvænt tíðindi.
12. umferðir eru í riðlinum og staðan er núna á þessa leið:
Fjarðabyggð 11 leikir 23 stig (14 mörk í plús)
Einherji 11 leikir 22 stig (6 mörk í plús)
Huginn 10 leikir 20 stig (7 mörk í plús)
Leikirnir sem eftir eru:
10. ág.
Huginn – Neisti Djúpavogi
Leiknir Fáskrúðsfirði – Einherji
14.ág.
Huginn – Höttur Egilsstöðum
Fjarðabyggð – Sindri
Fjarðabyggð er því með besta stöðu. Þeim dugar sigur og gætu jafnvel komist af með minna. Huginn kemst sömuleiðis áfram með því að vinna báða sína leiki. Vopnfirðingar þurfa hins vegar að treysta á úrslit annars staðar.
Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer á þriðjudaginn. – Það fæst hins vegar ekki gefið upp með hverjum ég held…