Ekki varð mér mikið úr verki í dag. Hafði stefnt að því að ganga frá kaupum á bílnum þeirra Kjartans og Sylvíu (sem eru flottir bloggarar). Þau eru á leið til útlandsins og þurfa að losna við bílinn sinn og dósin hennar Steinunnar er að ryðga í sundur. Engir bíllyklar skiptu um hendur. Fór þess í stað í vinnuna, þar sem ég lóðsaði hóp hressra Sandgerðinga um Minjasafnið og Elliðaárstöðina. Því næst lá leiðin á félagsfund í ísatrúarfélaginu þar sem ákveðið var að selja safnaðarheimilið. Vonandi rís hof fyrir söluandvirðið innan tíðar.
Á fyrramálið fer ég til Keflavíkur að horfa á Framara berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Því næst verður flogið austur. Við ætlum að taka síðbúið sumarfrí á Norðfirði, slaka á og keyra Fáskrúðsfjarðargöng. Alltaf gaman að skoða ný göng (sem minnir mig á að ég hef aldrei farið Ólafsfjarðargöngin – synd og skömm).
Ég hef hlakkað til þessarar ferðar í lengri tíma. Stóla á að vikuhvíld fyrir austan sé akkúrat það sem Steinunn þarf til að ná fyrri styrk. Veit líka að tengdapabbi er vitstola af spenningi yfir að fá að sjá Ólínu.
Ekki gera ráð fyrir neinum bloggfærslum hér næstu vikuna.
# # # # # # # # # # # # #
Á gær missti ég einn besta vin minn. Krabbamein er hræðilegur sjúkdómur.
# # # # # # # # # # # # #
Þóra systir er farin að blogga frá Ameríkunni. Skemmtilegt blogg, sem vænta mátti.
# # # # # # # # # # # # #
Luton var óheppið í dag að gera bara jafntefli á heimavelli gegn Úlfunum. Nýr markvörður lærisveina Glenn Hoddle fór víst á kostum og við áttum sláarskot. Erum í 2-4 sæti í deildinni, ásamt Watford. Hvort tveggja er óvænt.