Skopmyndadeilan mikla er komin í þann farveg að líklega skiptir engu máli hvað dönsku ritstjórarnir eða ráðamenn í Kaupmannahöfn segja eða gera – þeim verður ekki fyrirgefið úr þessu. Líklega geta danska ríkisstjórnin ekki gert annað en að bíða og vona að moldviðrið lægi með tímanum.
Danska forsætisráðherranum er vorkunn. Hann er settur í þá stöðu að vera krafinn um afsökunarbeiðni vegna verka dagblaðs sem hann hefur ekkert yfir að segja.
Fyrir nokkrum misserum gáfum við Valur Gunnlaugsson, erki-FRAMari, út blað sem dreift var á mörg heimili í Vesturbænum. Blaðið var skilgreint sem málgagn FRAMara í Vesturbæ og við Valur rækilega skráðir fyrir því sem ritstjórar og ábyrgðarmenn.
Eitthvað fór framtakið í taugarnar á svart-hvítum og bárust nokkrar kvartanir, meðal annars til KSí. Forystumenn í KR beittu miklum þrýstingi til að fá yfirlýsingu frá FRAM, þar sem félagið bæðist formlega afsökunar á útgáfunni.
Stjórnarmenn í FRAM bentu á að blaðið væri gefið út af nafngreindum einstaklingum, sem ekki gegndu neinum trúnaðarstörfum fyrir FRAM og að fráleitt væri að ætlast til þess að félagið bæri ábyrgð á skrifum stuðningsmanna úti í bæ.
Þessar skýringar dugðu hins vegar ekki skarpgreindum íþróttafréttamanni Stöðvar 2 sem tók málið upp í sjónvarpsfréttunum og kallaði eftir einhverskonar afsökunarbeiðni eða yfirlýsingu frá FRAM.
Einhverra hluta vegna sá hins vegar enginn sig knúinn til að hringja í okkur Val eða krefja okkur um afsökunarbeiðnir – enda engin ástæða til slíks.